Norsku bóluefnaskammtarnir komnir

Glas af AstraZeneca-bóluefni.
Glas af AstraZeneca-bóluefni. AFP

AstraZeneca-bóluefnaskammtarnir við Covid-19 sem Íslendingar fá að láni frá Norðmönnum bárust til landsins síðdegis í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráði Íslands.  

Áætlað er að byrjað verði að bólusetja með efninu strax í næstu viku í samræmi við fyrirmæli sóttvarnalæknis um notkun þess.

Norðmenn hafa gert hlé á bólusetningu með bóluefni AstraZeneca og voru skammtar Noregs sem runnið gætu út á meðan því lánaðir til Íslands og Svíþjóðar. 

Norska lýðheilsustofnunin átti því á lager 216.000 skammta af AstraZeneca-bóluefninu með fyrningu í júní og júlí. Norsk heilbrigðisyfirvöld ákváðu að lána Svíum 200.000 skammta og Íslendingum 16.000 skammta sem þjóðirnar munu greiða til baka með AstraZeneca í sama magni þegar Norðmenn kalla eftir því, að því er fram kemur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert