Umdeilanlegt að höfða mál gegn starfsmönnum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæði forsætis- og fjármálaráðuneytið hafa verið með til skoðunar að settar verði reglur um skaðleysi opinberra starfsmanna en verkefnið er stutt á veg komið. Umdeilanlegt er að Samherji skuli hafa höfðað mál gegn einstaka starfsmönnum Seðlabankans fremur en að beina sjónum sínum að stofnuninni sem slíkri. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Bankastjóri að vernda sína starfsmenn

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri furðaði sig á því í samtali við Stundina hvers vegna lögreglan hafi ekki vísað frá kæru Samherja á hendur fimm núverandi og fyrrverandi starfsmönnum bankans vegna rannsóknar bankans á meintum brotum fyrirtækisins á lögum um gjaldeyrismál.

Spurð út í ummælin segir Katrín að Ásgeir sé að vernda sína starfsmenn. „Það er umdeilanlegt þegar stórfyrirtæki eru í málaferlum við einstaka starfsmenn fremur en að beina sjónum sínum að stofnuninni sem slíkri. Hins vegar er búið að fjalla um þetta mál fram og til baka og það hefur verið bent á að stjórnsýsla bankans hefði mátt vera betri í þessum málum og að á henni hafi verið ágallar. En það má líka spyrja sig, ef fólk er að vinna samkvæmt bestu vitund, hvort það sé eðlilegt að fara í slík málaferli,“ segir Katrín.

Umboðsmaður Alþingis gagnrýndi stjórnsýslu bankans á sínum tíma og bankaráð Seðlabankans gaf álit sitt síðar þar sem tekið var undir gagnrýnina.

Katrín nefnir að sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins fyrir rúmu ári hafi styrkt getu stofnunarinnar til að takast á við flókin eftirlitsverkefni. „Ég held að það sé lykilatriði og ég tel að við höfum að einhverju leyti brugðist við því sem gagnrýnt var hjá Seðlabankanum,“ greinir hún frá.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðtækari reglur um opinbera starfsmenn 

Katrín bendir á að Seðlabankinn hafi nefnt það í tengslum við frumvarp um gjaldeyrismál sem er núna til meðferðar á Alþingi hvort hægt væri að setja inn í það ákvæði um skaðleysi starfsmanna bankans. Ákveðið var að gera það ekki þar sem slíkar reglur ættu að vera víðtækari. Skoða þyrfti heildstætt opinbera starfsmenn í þeim efnum en ekki bara starfsmenn Seðlabankans. Nefnir Katrín sem dæmi heilbrigðisstarfsfólk, sem hefur einnig kallað eftir úrbótum. „Á að vera hægt að höfða mál gegn hjúkrunarfræðingi sem gerir mistök í vinnunni?“  

Hún bendir á að hún sé búin að leggja fram frumvörp sem hafi orðið að lögum, m.a. um vernd uppljóstrara og um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna. Engu að síður þyrfti að skoða hver beri ábyrgðina í ákveðnum málum, hvort það hafi verið stofnunin eða starfsmaðurinn.

„Voru þeir að vinna vinnuna sína eða voru þeir að ganga óhóflega fram? Það er matsatriði. Hver er ábyrgð forstöðumannsins gagnvart þeim starfsmönnum?“ spyr Katrín og á þar almennt við opinbera starfsmenn.

Stjórnarráð Íslands.
Stjórnarráð Íslands. mbl.is/Ófeigur

Málin rædd í ráðuneytunum

Spurð hvenær væri hægt að ráðast í slíkar úrbætur segir hún að það taki tíma. Fara þurfi „kategorískt“ yfir opinbera starfsmenn og meta í leiðinni hversu langt slíkt skaðleysisákvæði myndi ná. „Þetta er töluvert mikið verkefni og við erum að ræða þetta innandyra hér,“ segir Katrín og bætir við að það sé einnig til umræðu í fjármálaráðuneytinu því opinberir starfsmenn heyri undir það. „Þetta er ekki verkefni sem er langt komið en hefur verið aðeins til skoðunar.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kemur af ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kemur af ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aukið gagnsæi mikilvægt

Seðlabankastjóri segir í viðtalinu að Íslandi hafi að miklu leyti verið stjórnað af hagsmunahópum sem fari sínu fram gegn veikum ríkisstofnunum. 

Katrín nefnir í þessu samhengi frumvarp sem var samþykkt um varnir gegn hagsmunaárekstrum þar sem í fyrsta sinn var gert ráð fyrir skráningu hagsmunavarða. „Þetta er eitt af einkennum vestrænna samfélaga. Hagmunaaðilar eru að beita sér. Oftast er það eðlilegt samspil en með því að auka gagnsæi í kringum þetta held ég að dragi úr hættu á að hagsmunaðilar hafi of mikil áhrif,“ segir hún og talar um verkalýðshreyfingar, atvinnuhreyfingar og félagasamtök sem beiti sér í hinum ýmsu málum. „Að taka þetta upp á yfirborðið er kannski fyrsta skrefið í að auka umræðuna um hver þessi hagsmunaáhrif eigi að vera,“ segir forsætisráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert