Fleiri sumarstörf fyrir 18 ára og eldri

Reykjavíkurborg auglýsir nú 477 sumarstörf fyrir 18 ára og eldri. Þetta er til viðbótar við þau 994 störf, bæði sumarstörf og sumarafleysingar, sem voru auglýst í febrúar síðastliðnum, að því er segir í tilkynningu.

Þá verða umsækjendurnir að stunda nám eða vera skráðir í nám næsta haust.

Borgarráð ákvað auk þess að fjölga um 250 störfum fyrir 17 ára einstaklinga. Sumarstörf Reykjavíkurborgar í ár eru því tæplega 1700 talsins.  

„Um er að ræða störf á Borgarbókasafni, á listasöfnum borgarinnar, í sundlaugum borgarinnar, í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, við umhirðu borgarlandsins, í frístundastarfi og fjölbreytt sumarstörf á velferðarsviði svo eitthvað sé nefnt. Öll þessi störf snerta líf borgarbúa með einum eða öðrum hætti og veita þessum hópi ungmenna tækifæri til að kynnast fjölbreyttri starfsemi Reykjavíkurborgar sem er stærsti vinnustaður landsins,“ segir í tilkynningunni.

Aukning sumarstarfanna er liður í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar vegna Covid-19 og er unnin í samvinnu við ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert