Bætt aðstaða um næstu mánaðamót

Heilbrigðisstarfsfólk á landamærunum.
Heilbrigðisstarfsfólk á landamærunum. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Stærri og betri aðstaða fyrir sóttvarnir á landamærunum verður tekin í notkun undir næstu mánaðamót. Sýnataka og skoðun vottorða verða flutt úr landamærasal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar yfir í komusal í norðurbyggingu fyrir utan tollinn. Einnig verður aðstaða í gámaeiningu sem verið er að setja upp á rútustæði fyrir utan flugstöðina.

„Þá fáum við fleiri vinnustöðvar og náum að afkasta meiru,” segir Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn hjá flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, sem veit ekki hversu margir nýir starfsmenn fylgja bættri aðstöðu.

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

300 manns með þremur Bandaríkjavélum

Að sögn Sigurgeirs er von á um 800 manns með flugi á morgun. Þar af koma um 300 manns með þremur flugvélum frá Bandaríkjunum á milli klukkan 6 og 8 í fyrramálið.

Spurður hvernig hópurinn á landamærunum er undirbúinn fyrir þennan aukna fjölda ferðamanna segir hann allt vera eins og verið hefur í vetur. Aðstaðan sem nú er til staðar leyfi ekki meiri hraða en venjulega. Ekki er því þörf á auknum mannskap sem stendur.

Sigurgeir Sigmundsson.
Sigurgeir Sigmundsson. Ljósmynd/Lögreglan

Breytt verkaskipting

Til að vera betur í stakk búin til að taka á móti fjöldanum hefur verkaskiptingu á milli fólks reyndar verið breytt til að ná meiri hraða. Í morgun þegar vélar frá Bandaríkjunum komu þurfti til að mynda að skoða bólusetningarvottorð farþeganna, fara yfir sóttvarnamálin með þeim á Íslandi og framkvæma almenna vegabréfaskoðun. „Við skiptum því á fleiri hendur, annars vegar að meta vottorðin og síðan landamæraeftirlitið,” segir Sigurgeir.

mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Yfir tveir tímar í biðröð 

Hann tekur fram að fólk sem er á annað borð að ferðast um þessar mundir veit að það er seinlegt. Til að mynda telur hann að fólk gæti þurft að bíða í yfir tvo klukkutíma í biðröð á morgun.

„Landamærin eru eins þétt núna og þau geta orðið. Þetta kerfi núna er nánast orðið vatnsþétt,” segir hann. „Öryggið er það sama því við gerum allt það sama og áður. Það tekur bara lengri tíma.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert