Hugsar um gamla fólkið og fækkar mínusunum

Skemmtikraftur. Jón Ólafur Þorsteinsson spilar fyrir fólkið á Grund.
Skemmtikraftur. Jón Ólafur Þorsteinsson spilar fyrir fólkið á Grund. mbl.is/Arnþór

Harmonikuleikarinn Jón Ólafur Þorsteinsson hefur verið traustur hlekkur í lífi íbúa og starfsmanna Grundar hjúkrunarheimilis í Reykjavík mörg undanfarin ár. „Ég er enginn nikkari heldur algerlega ólærður eyrnaplokkari, sem kann engar nótur, en þegar fólkið spyr hvort ég sé ekki með nikkuna er hún aldrei langt undan,“ segir hann.

Fáskrúðsfirðingurinn segist hafa byrjað að fikta við að spila á harmoniku þegar hann var 13 ára. „Um leið og skyldunáminu lauk lokaði ég skóladyrunum, stakk af, fór á vertíð í Eyjum og var á sjónum alla starfsævina eða þar til ég gat það ekki lengur í kjölfar hjartaaðgerðar. Spilaði lítið sem ekkert á meðan, bara stundum í landlegum, en eftir að ég kom í land fyrir um 15 árum tók ég upp þráðinn hérna á Grund og hef haldið honum síðan.“

Sjálfsbjargarviðleitnin skipti þá sköpum. „Ég kannaðist við mann sem spilaði hérna, spurði hvort ég mætti ekki spila með honum til að stytta mér stundir og klára daginn. Það var auðfengið og hér er ég enn.“

Jón Ólafur segir mjög gefandi að spila fyrir fólkið. „Ég hafði lent í áföllum og það að kynnast fólkinu hérna, stjórnendum, starfsfólki og íbúum, gaf mér líf. Ég á það þeim öllum að þakka og mér líður vel innan um fólkið.“

Ekki nóg að gert

Umönnun annarra skiptir Jón Ólaf miklu máli og hann vill endurgjalda aðstoðina sem hann hefur fengið. „Ég er alltaf með augu og eyru opin, því þegar fólk er gamalt og veikt má búast við öllu. Ég hef áhyggjur af fólkinu og þess vegna fylgist ég með því, aðstoða það ef ég get með það að leiðarljósi að láta gott af mér leiða. Þegar ég var á sjónum var ég ekki alltaf á beinu brautinni, lifði kannski ekki alveg rétta lífinu, en nú hef ég góðan tíma til þess að gera góða hluti og fækka þannig mínusunum þarna uppi.“

Jón Ólafur smitar gleðinni út frá sér til viðstaddra.
Jón Ólafur smitar gleðinni út frá sér til viðstaddra. mbl.is/Arnþór

Íbúar á öldrunarheimilum eru eldri og veikari nú en þegar Jón Ólafur byrjaði að spila á Grund. Hann segir að þess vegna hafi dregið úr hringdansinum, en fólkið dansi samt áfram, hver með sínu lagi. „Þegar ég byrja að spila stendur einn og einn upp, grípur einhverja konu í fangið og þau taka sporið. Flestir sitja samt í hjólastólum, margir eiga erfitt með mál, en þegar ég spila gömlu lögin og fer með fyrstu laglínuna tek ég eftir því að fætur þeirra fara að hreyfast og fólkið syngur með í hljóði, hreyfir varirnar. Það eru því allir með.“

Í góða veðrinu er gjarnan farið út til þess að spila, syngja og dansa. Jón Ólafur segir samt að fara verði varlega. „Við erum með viðkvæman hóp og verðum að passa vel upp á hann. Faraldurinn hefur líka reynt á alla.“

Reynslan segir honum að ekki sé nóg að gert fyrir aldraða í samfélaginu. „Ráðamenn þjóðarinnar ættu að sjá til þess að miklu betur sé gert fyrir gamla fólkið okkar. Það skilaði okkur frá sér en við höfum ekki hugsað um það eins og við hefðum átt að gera.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert