Sýnataka á 48 klukkustunda fresti

Daði og gagnamagnið.
Daði og gagnamagnið. Ljósmynd/Samband evrópskra sjónvarpsstöðva

Að sögn Felix Bergssonar fer íslenski Eurovision hópurinn í sýnatöku á 48 klukkustunda fresti í Rotterdam. Þá geti hópurinn ekki farið inn í höllina, né nokkurt annað, án þess að sýna fram á minna en 48 stunda neikvætt próf. 

Hópurinn sem fer á rauða teppið eða turkísbláa teppið, eins og Felix kallar það, á  kynningarkvöld á morgun, fór allur í sýnatöku í morgun og voru sýnin öll neikvæð. Það hefur auk þess fengist í gegn að allur hópurinn verði prófaður á morgun og mun þá allur íslenski hópurinn hafa fara í sýnatöku um helgina.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag greindist aðalsöngvarinn úr pólska hópnum með Covid-19. Felix segir að ekki hafi verið gripið til frekari ráðstafana vegna þessa hjá íslenska hópnum og það að eigi eftir að skoða betur hvort það verði gert. Felix þykir þó ólíklegt að þetta muni hafa mikil áhrif á íslenska hópinn.

„Við höfum fylgt öllum sóttvarnareglum og ekki verið í samskiptum við þennan hóp,“ segir Felix.

Þá segir Felix að samskipti milli hópanna úti séu töluvert minni en vanalega.

„Það eru bara miklu miklu minni samskipti og menn eru bara að passa sig inni á sínum herbergjum og við í rauninni höfum kosið að gera það þannig og sá eini sem hefur verið í einhverjum samskiptum er ég og bara við yfirmenn hópanna,“ segir Felix.

Felix Bergsson, Daði Freyr Pétursson og Rúnar Freyr Gísalson.
Felix Bergsson, Daði Freyr Pétursson og Rúnar Freyr Gísalson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Felix segir of snemmt að segja til um það hvort að pólski hópurinn fái að stíga á svið í næstu viku en bendir á að sá smitaði hafi ekki átt að koma fram á sviðinu.

„Ef að allir eru í lagi og allt kemur vel út hjá þeim og þau ná hreinlega að einangra þetta eina smit án þess að meira komi upp þá held ég að það sé engin ástæða til annars en að ætla að þau komist á sviðið,“ segir Felix.

Þá segir Felix að Daði sé búinn að fá frábærar viðtökur í Rotterdam. Æfingar gangi vel og að hópurinn sé glaður og bjartsýnn.

„Þetta er búið að vera algjör draumaferð hingað til,“ segir Felix að lokum.

Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam.
Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam. Ljósmynd/Rúnar Freyr Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert