Hálfnaðir með seinni varnargarðinn

Frá gerð varnargarðsins í gær.
Frá gerð varnargarðsins í gær. Ljósmynd/Aðsend

Vinna við eystri varnargarðinn, sem unnið er að því að reisa í sunnanverðum Meradölum, er nú hálfnuð og útlit er fyrir að garðurinn verði tilbúinn á morgun. Upphaflega var vonast til þess að vinnan myndi klárast í dag, en útlitið núna er að það muni ekki alveg klárast. Ákvörðun um hvort garðarnir tveir verði hækkaðir verður tekin á morgun. Þetta segir Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur hjá Verkís, í samtali við mbl.is.

Vonast er til að varnargarðarnir muni koma í veg fyrir að hraun frá eldgosinu í Geldingadölum renni niður tvö skörð í sunnanverðum Meradölum niður í Nátthaga. Ef hraunið rennur þangað er stutt í að það renni yfir Suðurstrandarveg, auk þess sem ljósleiðari liggur um Nátthaga og óvíst er um afdrif hans ef hraunið fer þar yfir.

Í gær lauk vinnu við vestari garðinn og var strax farið að vinna að því að ryðja upp eystri garðinum. Fyrir hafði reyndar verið komið upp svokölluðum neyðarruðningum sem voru rétt innan við þann stað þar sem ryðja átti upp varnargörðunum. Ari segir að það hafi verið gert til að tryggja öryggi á vinnusvæðinu.

Upphaflegar áætlanir gera ráð fyrir fjögurra metra háum varnargörðum og er vestari garðurinn kominn upp í þá hæð. Ari segir að eystri garðurinn sé um tveir metrar að hæð og verði orðinn fjórir metrar á morgun.

Hraunið er þegar komið að neyðarruðningnum og þrýstir á hann að sögn Ara. Nokkrir steinar eru þegar komnir yfir hann, en enn sem komið er ekkert mjög stórir og segir Ari að enn sé ekkert komið á varnargarðinn sjálfan, hvorki vestari né eystri garðinn.

Auk verkfræðings frá Verkís hafa tveir tækjamenn unnið á ýtu eða gröfu að því að ryðja upp garðinum, en Ari segir að núna sé einnig mælingarmaður frá Verkís á staðnum. Hann segir að engin ákvörðun hafi enn verið tekin um að fara með vélarnar í burtu þegar eystri garðurinn sé kominn upp í fjóra metra og verði beðið með það þangað til ákvörðun um hvort hækka eigi garðana verði tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert