Með hjólabakteríuna á hæsta stigi

Birgir Bjarnason og dóttir hans Heiða stunda fjallahjólamennsku. Hún kom …
Birgir Bjarnason og dóttir hans Heiða stunda fjallahjólamennsku. Hún kom honum á bragðið. Ljósmynd/Aðsend

Birgir er sportlega klæddur í skærlituðum íþróttabol og stuttbuxum daginn sem blaðamann ber að garði. Þessi 74 ára gamli fyrrverandi kennari lætur aldurinn ekki aftra sér en hann stundar hjólreiðar af ýmsum toga af kappi.

Heilsan það dýrmætasta

„Ég hef verið liðtækur í íþróttum allt frá barnæsku. Ég var alltaf bestur í leikfimi,“ segir hann og brosir.

 „Ég var í fótbolta um tvítugt en svo tók lífsbaráttan við og þá var maður lítið að pæla í íþróttum fyrr en ég var 35 ára, 1982. Þá álpaðist ég inn á fyrstu líkamsræktarstöðina sem var opnuð í kjallara Kjörgarðs. Þá byrjaði áhuginn á líkamsrækt og ég hef stundað hana alla götur síðan, með smá hléum. Það eru þá komin um fjörutíu ár,“ segir Birgir og segist viss um að hreyfingin hafi stuðlað að góðri heilsu.

Fyrsta hjólið um fimmtugt

Birgir segir börn sín öll hafa haft áhuga á hreyfingu en það var þó aðallega Heiða, elsta dóttir hans, sem smitaði pabba sinn af hjólabakteríunni.

 „Ég keypti fyrst hjól um fimmtugt, forláta hjól, Gary Fisher. Þessi hjól voru bara svo flókin þannig að þetta heillaði mig ekkert rosalega. Svo var það fyrir svona sjö átta árum að Heiða kaupir sér hjól og ég fer að skoða þetta aftur. Í dag er þetta allt önnur tækni en áður og það er gríðarleg þróun í þessu. Til þess að hafa gaman af sportinu þarf maður að hafa þokkalegt tæki,“ segir Birgir og segist hafa byrjað á því að kaupa sér götuhjól.

Birgir er vel útbúinn á fjallahjólinu.
Birgir er vel útbúinn á fjallahjólinu. Ljósmynd/Aðsend

„Svo keypti ég mér fjallahjól, létt og skemmtilegt. Næst fékk ég mér Racer. Fyrir fimm árum fékk ég mér svo fulldempað fjallahjól.“

Gott að hjóla einn

Hvað er skemmtilegast?

„Þetta er allt skemmtilegt, en gjörólíkt. Það að hjóla á malbiki er önnur hreyfing heldur en að hjóla á fjallahjóli,“ segir Birgir og segist nota öll þrjú hjólin í bland.
„Ég nota þetta fulldempaða fjallahjól þegar ég fer út í hraunið, en ég fer ekki mikið í brekkur. Ég er ekki búinn að ná þeirri tækni.“
Birgir segist oftast fara einn út að hjóla.
„Mér finnst gott að fara einn; þá stjórnar maður tímanum. Ég fer oft hér í kring, upp að Hvaleyrarvatni og víðar, en það eru óteljandi möguleikar,“ segir Birgir en hann býr í Hvammahverfi í Hafnarfirði og því stutt að fara út í náttúruna.

Fimmtíu kílómetra hringur

Birgir hjólar einnig á malbikinu og þá lengri vegalengdir en á fjallahjólinu.

„Strákurinn minn á Racer og við hjólum stundum saman, til dæmis út á Gróttu. Það eru um fimmtíu kílómetrar; góður hringur,“ segir Birgir en hann segist hjóla að minnsta kosti klukkutíma á dag.

Stundum þarf að bera hjól upp brekkuna!
Stundum þarf að bera hjól upp brekkuna!


„Uppáhaldshringurinn minn er héðan og út í Kaldársel og þaðan upp í Búrfell og þaðan niður að Vífilsstaðavatni. Það er vinna að halda sér í þokkalegu formi!“ segir Birgir og segist sjá alltaf fleiri og fleiri á sínum aldri á hjólum. Margir sem eru í eldri kantinum nýta sér rafmagnshjólin.

Birgir Bjarnason nýtur þess að halda heilsunni við nú þegar …
Birgir Bjarnason nýtur þess að halda heilsunni við nú þegar hann er kominn á eftirlaun með því að hjóla út um allar trissur.

„Það fer stundum í taugarnar á mér þegar einhver gamlingi fer fram úr mér á rafhjóli,“ segir Birgir og skellihlær.

Ítarlegra viðtal er við Birgi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert