Arnar þiggur sætið: „Ekki á móti alþjóðasamstarfi“

Arnar Þór Jónsson.
Arnar Þór Jónsson. mbl.is/RAX

Arnar Þór Jónsson, frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, lítur á niðurstöðuna sem eindregna stuðningsyfirlýsingu við sig og þau sjónarmið sem hann hefur fært fram.

Í kosningabaráttu sinni lagði Arnar áherslu á að hann byði sig fram til að leiða vitundarvakningu. Honum finnst þó enn gæta misskilnings meðal kjósenda um hvað hann hefur fram að færa.

„Ég er alls ekki á móti alþjóðasamstarfi eins og sumir halda,“ segir hann og bætir við að það sé tvennt ólíkt að vera í alþjóðasamstarfi á jafnréttisgrunni og hins vegar að lúta stjórn og yfirráðum annarra þjóða eða erlendra stofnana. „Þetta er mjög mikilvægur punktur sem ég þarf greinilega meiri tíma og stærra ræðupúlt til að ræða.“

Lýðræðisleg og borgaraleg skylda

Arnar segir ferlið búið að vera mjög skemmtilegt og hann hafi fundið fyrir stuðningi frá mjög fjölbreyttum hópi fólks. Hann talar um góð viðbrögð frá grasrót Sjálfstæðisflokksins en einnig hefðu margir sagt við hann að þeir hefðu gengið sérstaklega í flokkinn til að kjósa hann. Þá hafi enn fleiri sagst ætla að ganga í flokkinn, taki hann sæti á lista.

Lítur Arnar á það sem lýðræðislega og borgaralega skyldu sína gagnvart þeim 2.000 kjósendum sem kusu hann að taka sæti fyrir komandi alþingiskosningar. Þá sé hann í dauðafæri að komast á þing og flytja boðskap sinn þar.

Arnar starfar nú sem héraðsdómari og ljóst er að ef hann ætlar sér á þing mun hann þurfa að fórna því embætti. Hann segir sig munu sjá eftir dómarastöðunni en finnur sig knúinn til að fara áfram með málstað sinn. „Ég hef verið að byggja upp feril innan dómstólanna alla mína starfsævi en þetta er verkefni sem ég tel mikilvægt að berjast fyrir.“

Góð blanda af reynslu og nýju fólki

Miðað við síðustu kosningar er 5. sæti listans svokallað baráttusæti. Arnar bendir þó á að á þarsíðasta tímabili hafi þetta verið þingsæti. Gæti það vel orðið aftur og ætti að vera að hans mati.

„Ég lít bara á þetta sem sigur þótt ég hafi stefnt hærra. Það er við ramman reip að draga að bjóða sig fram á móti sitjandi þingmönnum en ég var aðeins 99 atkvæðum frá öðru sæti og 38 atkvæðum frá því fjórða.“

Arnar segir listann endurspegla góða blöndu af reynslu og nýju fólki.

Enginn reyndi að sparka í mig, sem ég er þakklátur fyrir

„Við getum byggt ofan á þennan kraft sem við skynjuðum í þessu prófkjöri. Þetta fór líka allt málefnalega og vel fram. Ég steig ekki ofan á nokkurn mann og enginn reyndi að sparka í mig, sem ég er þakklátur fyrir,“ sagði Arnar um kosningabaráttuna.

Hann talaði sérstaklega um áhuga ungs fólks sem veitti honum óumbeðna aðstoð af hreinum lýðræðisáhuga. „Það vekur hjá manni von um framtíðina.“

Spurður út í kynjahallann á listanum sagðist Arnar á móti því að alhæfa um fólk út frá staðalímyndum. Það yrði að vera hægt að tala um einstaklinga án þess að hólfa fólk niður út frá litarhætti, kynferði eða aldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert