Sögulegur kuldi á Akureyri í nótt

Í nótt mældist eins stigs frost á Akureyri.
Í nótt mældist eins stigs frost á Akureyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Eins stigs frost mældist á Akureyri í nótt og hefur ekki mælst slíkur kuldi þar í júní síðan 1978, þegar frysti 23. júní. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir frá þessu í facebookfærslu sem hann birti í dag. 

Á láglendi var kaldast í nótt, fimm gráðu frost á Reykjum í Fnjóskadal og -4,9 gráður á Végeirsstöðum í sömu sveit. 

Er þetta ávísun á kalt sumar?

„Í sjálfu sér ekki. Við þekkjum sumarveðráttuna og hún er breytileg, það koma kaflar með þessu og síðan kaflar með hinu veðrinu. Það að sumarið fari illa af stað er ekki vísbending um að sumarið fari illa,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir tíðina hafa verið kaflaskipta, með miklum þurrki í maí með mikilli hlýju fram undir mánaðamót. „Það kom tólf daga kafli þar sem var mjög hlýtt, síðan rigndi loksins sunnan- og vestanlands og þá var kærkomið að fá bleytuna. Síðan erum við núna í þessari köldu báru,“ segir hann.

Spáin næstu daga er í kaldara lagi og ekkert bendir til hlýrra veðurs enn sem komið. Út þessa viku fer hitinn ekki upp fyrir tíu gráður samkvæmt mælingum Veðurstofunnar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert