Allir árgangar hafa fengið fyrsta boð

Allir árgangar ættu nú að hafa fengið boð í fyrstu …
Allir árgangar ættu nú að hafa fengið boð í fyrstu bólusetningu gegn Covid-19. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að boða alla árganga sem boða á í bólusetningu með bóluefnunum Janssen, Pfizer og AstraZeneca í næstu viku. Í lok þeirrar viku ættu allir árgangar að hafa hlotið í það minnsta fyrstu bólusetningu, nema þeir sem hafa afþakkað boðið af einhverri ástæðu, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Um 5.700 manns fengu bóluefnið Moderna í Laugardalshöll í dag og gekk dagurinn nokkuð snuðrulaust fyrir sig samkvæmt Ragnheiði.

„Þetta var frekar lítill dagur hjá okkur í dag en hann gekk bara alveg ljómandi vel og hver einasti skammtur fór út. Það voru 1.700 skammtar afgangs þegar búið var að endurbólusetja svo við gátum boðað tvo hópa til viðbótar en það voru konur fæddar 1994 og karlar fæddir 1987,“ segir Ragnheiður.

Lotuskipti geta valdið töfum

Að sögn Ragnheiðar kom ekkert óvænt upp við bólusetningar í dag en þó hafi verið óvenju mikið um lotuskipti í dag miðað við aðra daga en slík skipti geta valdið töfum.

„Það voru að mig minnir sjö lotur í dag. Í hvert skipti sem við skiptum um lotu þurfum við að loka svo við getum breytt skannanum sem skannar fólk inn. Það eru tilmæli frá lyfjaframleiðendum að skrá hvaða lotu hver einstaklingur fær og við notum skannann í það. Þá er hægt að rekja það hvaða hópur fékk hvaða lotu ef eitthvað kemur upp á. Þannig þetta tafði okkur aðeins í dag,“ segir Ragnheiður.

Þá segir Ragnheiður lotuskipti ekki vanann þegar kemur að hefðbundnari bólusetningum á borð við þá sem notaða er við inflúensu.

„Þetta er svona nákvæmt í þessu því þetta er nýtt bóluefni,“ segir hún.

Aðspurð hvort eitthvað hafi verið um yfirlið í höllinni í dag svarar Ragnheiður játandi.

„Ekkert meira í dag en síðustu daga samt. Við erum svolítið að hvetja fólk til að láta okkur vita fyrirfram ef það heldur að það líði yfir það. Þá getum við brugðist betur við og fylgst aðeins með þeim, tekið þau afsíðis eða leyft þeim að liggja. Það er svo vont þegar þau detta í gólfið þannig við erum að reyna grípa þau áður en það gerist,“ segir Ragnheiður að lokum.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkr­un­ar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert