Neytendasamtökin harma brot Eimskips

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

Stjórn Neytendasamtakanna vill rýmka reglur um rétt neytenda til að heimta bætur vegna samkeppnisbrotamála. Stjórnin fjallaði um brot og sátt Eimskips í tilkynningu sem var birt nú á tíunda tímanum. 

Eins og fram kom í frétt mbl.is fyrr í kvöld undirrituðu Samkeppniseftirlitið og Eimskip sátt í dag sem batt endi á áralanga rann­sókn Sam­keppnis­eft­ir­lits­ins á Eim­skip. Eimskip mun greiða sekt upp á einn og hálfan milljarð króna en viðurkenndi jafnframt alvarleg brot á samkeppnislögum með ítarlegu samráði við keppinautinn Samskip. 

Stjórnin segist harma brot bæði Samskips og Eimskips. Hún telur þessa rannsókn, auk margra annarra mála sem hafa verið til umfjöllunar nýlega, sýna fram á mikilvægi öflugs og virks eftirlits með samkeppni.

Kalla eftir lagabreytingum

Í ályktuninni er því haldið fram að neytendur hér á landi séu hlunnfarnir þar sem það sé afar erfitt fyrir þá að sækja bætur vegna brota sem þessara. Telur stjórnin því brýnt að tilskipun Evrópusambandsins um skaðabótareglur á sviði samkeppnismála eða önnur sambærileg lög séu innleidd til að gera neytendum auðveldara að sækja rétt sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert