Telja lausn SÍ vera þvingunaraðgerðir

mbl.is/Kristinn Magnússon

Félag talmeinafræðinga telur svör Maríu Heimisdóttur, forstjóra SÍ, um lausn í sjónmáli fyrir talmeinafræðinga ekki standast rök. Félagið sendi frá sér yfirlýsingu varðandi deiluna milli þeirra og Sjúkratrygginga Íslands í dag.

Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar eru með gildandi rammasamning við Sjúkratryggingar Íslands sem hafa ákveðið að þeir einir geti orðið aðilar að þessum samningi sem hafi tveggja ára starfsreynslu sem talmeinafræðingar. Það þýðir því að útskrifaðir talmeinafræðingar geta ekki lagt lóð sín á biðlistavogarskálarnar fyrr en tveimur og hálfu ári eftir útskrift.

Þá stendur til að fjöldi barna missi talmeinafræðinga ef allt helst óbreytt. Yfir 60 börn hafa fengið þjónustu hjá tveimur nýútskrifuðum talmeinafræðingum á Akureyri undir handleiðslu reyndari talmeinafræðinga og stendur því til að þau börn þurfi að fara aftur á biðlista vegna þessa.

Lausninni hafnað

„Við erum ósátt við það að talmeinafræðingar sem hafa fullt starfsleyfi frá landlæknisembættinu og eru búnir að klára handleiðslu reynds talmeinafræðings geta ekki farið á samning hjá Sjúkratryggingum til að sinna þeim börnum á þeim biðlistum sem eru sem lengstir,“ sagði Kristín Th. Þórarinsdóttir, formaður Félags talmeinafræðinga á Íslandi, í samtali við blaðamann mbl.is.

„Þar sem við erum við erum svo fámenn stétt þá viljum við leita lausna til þess að hamla ekki þjónustunni heldur geta starfað þar sem þörfin er mest.“ 

Þá sagði forstjóri SÍ að lausn væri í umræðu og bauð fyrirtækjasamning við sjúkratryggingar í stað þess að samningur yrði gerður við einstaka talmeinafræðinga. Í yfirlýsingu frá félagi talmeinafræðinga kemur hins vegar fram að lausninni sé hafnað.

Þá segir í yfirlýsingunni að við nánari athugun hafi komið í ljós að þeir fyrirtækjasamningar henti ekki því rekstrarformi sem stofur sjálfstætt starfandi talmeinafræðinga starfa eftir. Því lítur félagið á þær lausnir sem SÍ boðaði sem „þvingunaraðgerðir af hálfu SÍ“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert