Endurgerðu þjóðfundinn í tilefni dagsins

Auglýsingin birtist á síðum 18 og 19 í Morgunblaðinu í …
Auglýsingin birtist á síðum 18 og 19 í Morgunblaðinu í dag.

Kvenréttindafélag Íslands birti í dag auglýsingu í tilefni af kvenréttindadeginum 19. júní. Verkefnið var unnið að frumkvæði auglýsingastofunnar Brandenburgar, að því er fram kemur í tilkynningu.

Segir í henni að ætlunin hafi verið að benda á að þrátt fyrir að margt hafi áunnist sé hægt að gera enn betur í baráttunni fyrir kynbundnu jafnrétti.

Því hafi verið ákveðið að endurgera „Þjóðfundinn“, þjóðþekkt málverk eftir Gunnlaug Blöndal.

Víðtæk samstaða allra sviða

„Þar er vísað til þjóðfundarins sem haldinn var í Lærða skólanum árið 1851 þegar Jón Sigurðsson og aðrir embættismenn töluðu gegn innlimun Íslands í danska ríkið. Á fimmta tug karlmanna stóðu þá á fætur og sögðu: „Vér mótmælum allir.“ Í auglýsingunni eru þessi fleygu orð endurvakin, en að þessu sinni eru það ekki eingöngu karlmenn sem eiga sér málsvara,“ segir í tilkynningunni.

Myndin var tekin í hátíðarsal Menntaskólans í Reykjavík þar sem fundurinn fór fram á sínum tíma. Þátttakendur koma víða að úr samfélaginu og má þar t.a.m. nefna einstaklinga sem eru í forsvari fyrir menntastofnanir, hagsmunasamtök, stjórnsýslu eða atvinnulíf auk einstaklinga sem hafa beitt sér í baráttu fyrir kynbundnu jafnrétti.

„Áhersla var lögð á að fá fjölbreyttan hóp fólks til þátttöku til að tákna víðtæka samstöðu allra sviða samfélagsins.“

Þetta endurspegli svo ný yfirskrift: „Vér mótmælum öll.“

Metnaðarfullt og kraftmikið verkefni

„Við erum virkilega stolt af að hafa tekið þátt í þessu metnaðarfulla og kraftmikla verkefni. Það er alltaf ánægjulegt að vinna að því sem stendur manni nærri. Það krefst auðvitað mikillar vinnu og skipulagningar að fá svona stóran hóp fólks til að koma saman og endurskapa þjóðþekkt verk, sem flestir hafa eflaust skoðun á,“ er haft eftir Sigríði Theódóru Pétursdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Brandenburgar.

„Það var engu að síður mikill samstöðuhugur og gleði sem ríkti í Menntaskólanum í Reykjavík – einmitt í anda verkefnisins. Nú vonum við bara að skilaboðin hafi tilætluð áhrif. Með samstöðu getum við nefnilega gert enn betur í baráttunni fyrir jafnrétti.“

„Við náum aldrei kynjajafnrétti hér á landi ef konur taka ekki fullan og jafnan þátt í allri ákvarðanatöku. Jafnrétti verður aldrei náð ef það er ekki fyrir okkur öll og kvenfrelsi náum við aðeins í sameiningu,“ er haft eftir Tatjönu Latinovic, formanni Kvenréttindafélags Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert