Færri skimaðir í dag en í gær

Það var röð fyrir hádegi en ekki eftir hádegi í …
Það var röð fyrir hádegi en ekki eftir hádegi í sýnatöku á Suðurlandsbraut í dag, að sögn Ingibjargar. mbl.is/Árni Sæberg

Sýnatökur hafa gengið vel í dag, að sögn Ingibjargar Salóme Steindórsdóttur, verkefnastjóra sýna­töku hjá Heilsu­gæsl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. 

„Það var engin röð eftir hádegi sem kalla skyldi þannig að það er bara flott.“

Færri voru skimaðir í dag en í gær. Þrátt fyrir það var nokkuð löng röð fyrir hádegi. Ingibjörg segir að það skýrist af því að allir mæti meira og minna á sama tíma. 

„Fólk þarf að vera þolinmótt, sem hefur ekki reynst neitt mál enda gott veður og huggulegt,“ segir Ingibjörg.

Bæta við fólki hægt og rólega

Í gær tilkynnti Alma D. Möller landlæknir að opnað hefði verið fyrir skráningu í bakvarðasveit. Fólk hefur verið beðið að skrá sig jafnvel þótt það sé ekki heilbrigðisstarfsfólk, þar sem vanti að bæta mannskap við sýnatökur meðal annars, sem krefjist ekki endilega sérfræðiþekkingar.

Spurð hvort mannskapur sé byrjaður að skila sér í gegnum bakvarðasveitina segir Ingibjörg: „Við erum bara að reyna að bæta við fólki hægt og rólega meðan við hlaupum, það verður fínt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert