Verklag við kjörskrá er óbreytt

Kjósendum á kjörskrá í Reykjavík hefur fækkað um 690 frá …
Kjósendum á kjörskrá í Reykjavík hefur fækkað um 690 frá kosningunum 2017. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjóðskrá hefur ekki breytt neinu verklagi við vinnslu kjörskrár, eins og skilja mátti af frétt um að kjörskrá hafi verið lokað fyrr en venjulega. Fram hefur komið að kjósendum á kjörskrá í Reykjavík fyrir alþingiskosningarnar hefur fækkað um 690 frá því í kosningunum 2017.

Þjóðskrá sendi Morgunblaðinu eftirfarandi athugasemdir við fréttina:

·       Þjóðskrá hefur ekki breytt neinu verklagi varðandi vinnslu kjörskrár.

·       Kjörskrá er ekki lokað fyrr, henni er lokað 5 vikum fyrir kjördag samkvæmt lögum um kosningar til alþingis. Sama verklag og í fyrri kosningum til alþingis. Kosningar eru aftur á móti fyrr á ferðinni þetta haustið en haustið 2017. Fyrirsögnin er því óheppileg.

·       Námsmenn erlendis, ef þeir eru með lögheimili erlendis, eru á kjörskrá ef það er innan við 8 ár frá flutningi líkt og aðrir íslenskir ríkisborgarar erlendis. Eftir 8 ár þarf að sækja um að vera tekin á kjörskrá. Er þetta í samræmi við lög um kosningar til alþingis.

·       Árið 2017 var þing rofið með skömmum fyrirvara og boðað til kosninga. Þá voru jafnframt samþykkt bráðabirgðalög sem heimiluðu Íslendingum erlendis að sækja um að komast á kjörskrá, með skömmum fyrirvara sem er ekki í samræmi við gildandi lög sem gera ráð fyrir að umsókn skuli hafa borist fyrir 1. desember . Fyrir kosningarnar 2017 voru samþykkt lög  nr. 79/2017 um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum (viðmiðunardagur umsóknar um kosningarrétt). Um var að ræða bráðabirgðaákvæði sem fell úr gildi 1. desember 2017. Sambærilegar breytingar voru gerðar á lögum um kosningar til Alþingis 2009 og 2016 en þá var þing einnig rofið skyndilega og boðað til Alþingiskosninga með stuttum fyrirvara. Tilgangur laganna var að gefa kjósendum búsettum erlendis tækifæri til þess að komast inná kjörskrá með umsókn.

Hér er hægt að kynna sér framgang frumvarpsins er varð að lögum nr. 79/2017. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert