Vildu koma skilaboðunum „vertu glaður“ um alla borgina

Aftan á bolunum sem Fannar og fjölskylda létu prenta á …
Aftan á bolunum sem Fannar og fjölskylda létu prenta á stendur „Vertu glaður“. mbl.is/Arnþór

Fannar Guðmundsson, faðir Theodórs Mána sem fæddist með afar sjaldgæfan erfðasjúkdóm, hljóp maraþon í gær á eins árs afmælisdegi sonarins. Hann safnaði rúmum þremur milljónum króna í áheitasöfnun sinni fyrir Barnaspítala hringsins.

Foreldrar Theodórs Mána, Þau Fannar og Anna Gréta Oddsdóttir, hafa verið opinská með veikindi hans en hann fæddist með sjaldgæfan erfðasjúkdóm og er ekki hugað langt líf. Fannar hefur áður komið fram og ræddi hann veikindi sonarins og aðstæður fjölskyldunnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í júlí.

„Ég byrjaði að æfa fyrir maraþonið í janúar og var búinn að hugsa um að mig langaði að gera þetta í svona ár. Ég hóf svo söfnunina í byrjun júlí og það hafði gengið vel að æfa og söfnunin gengið lygilega vel,“ segir Fannar og bætir við að hann sé enn að jafna sig á gærdeginum sem að hans sögn gekk eins og í sögu.

Fannar segir að hlaupið hafi gengið afar vel og sömuleiðis …
Fannar segir að hlaupið hafi gengið afar vel og sömuleiðis allt skipulagið í kringum það. Hann hafi fengið marga með sér í lið og hlaupið með mörgum af bestu hlaupurum landsins. mbl.is/Arnþór

„Vertu glaður“

Aftan á bolunum sem Fannar og fjölskylda létu prenta á stendur „Vertu glaður“. Fannar segir að setningin spretti af því að fjölskyldan hafi velt fyrir sér hvað Theodór myndi segja ef hann gæti talað.

„Þetta er svona það fyrsta sem að okkur fannst skýrt að ef hann gæti talað við fólk að þá myndi hann segja „vertu glaður“, þar sem hann er sjálfur svo ótrúlega glaður og það er hugarfar sem maður hefur reynt að tileinka sér,“ segir Fannar.

„Við vildum þess vegna hlaupa með þetta og koma þessum skilaboðum út um alla borgina. Þó svo að aðstæðurnar séu eins ótrúlegar og þær eru að þá er þetta með þessu hugarfari svo mikil gleði í þessum aðstæðum.“

Orkan og andrúmsloftið hafi verið ótrúlegt

Hann segir að hlaupið hafi gengið afar vel og sömuleiðis allt skipulagið í kringum það. Hann hafi fengið marga með sér í lið og hlaupið með mörgum af bestu hlaupurum landsins.

„Vinir mínir hjóluðu með okkur og voru með drykki og svo voru aðrir sem voru á bílum og settu upp drykkjarstöðvar á fimm kílómetra fresti. Síðan voru pepp stöðvar á leiðinni þar sem fólki fjölgaði alltaf með hverri stöð, þannig að orkan og andrúmsloftið í kringum þetta var alveg ótrúlegt.“

„Þegar við hlupum framhjá barnaspítalanum þá voru tugir manns og mikið af því var fólk sem þar starfar, það var ótrúlegt augnablik. Þegar maður er búinn að hlaupa 38 kílómetra og er gjörsamlega bugaður þá er það þvílíkur kraftur sem maður fær úr þessu. Ég náði öllum mínum tímamarkmiðum, ég var þrjá klukkutíma, þrjár mínútur og 56 sekúndur með þetta.“

Upprunalega áheitamark Fannars var ein milljón, hann segir að sú …
Upprunalega áheitamark Fannars var ein milljón, hann segir að sú upphæð hafi fljótlega náðst og hann því næst stefnt á tvær og að lokum þrjár milljónir. mbl.is/Arnþór

Afmælisveisla Theodórs Mána haldin að hlaupinu loknu

Eftir hlaupið var síðan fagnað eins árs afmæli Theodórs Mána með veisluhöldum en Fannar segir að það hafi verið einstaklega ánægjulegt að hlaupið hafi einmitt hitt á eins árs afmælið. 

„Það var magnað að fara út um morguninn og sjá hann nýorðinn eins árs og þegar maður var að bugast í hlaupinu þá hugsaði ég um hann og allt þetta fólk líka sem var komið þarna saman.“

Hann segist hafa fundið fyrir rosalegri hvatningu bæði í aðdraganda hlaupsins og á meðan að á því stóð. „Ég fann fyrir rosalegri hvatningu og öll þessi áheit eru mögnuð, ég veit að það er búið að panta þessi tæki núna sem að er verið að safna fyrir, af því að söfnunin er búin að ganga svo vel. Þetta er búið að vera gjörsamlega magnað.“

Upprunalega áheitamark Fannars var ein milljón, hann segir að sú upphæð hafi fljótlega náðst og hann því næst stefnt á tvær og að lokum þrjár milljónir. „Síðast þegar ég kíkti var þetta komið í 3,2 milljónir. Það er mjög gaman að lesa það sem fólk skrifar með áheitunum og sjá öll þessi nöfn, fullt af nöfnum sem ég veit ekkert hver eru sem eru að styðja þetta.“

Enn er hægt að styðja við áheitasöfnun Fannars og fjölskyldu en það má gera á söfnunarsíðu Reykjavíkurmaraþonsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert