Flestir látast úr blóðrásarsjúkdómum og æxlum

Síðasta áratug létust flestir á Íslandi úr blóðrásarsjúkdómum og vegna æxla. Samtals telja þessir tveir flokkar fyrir um 60% allra andláta hér á landi. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar sem birtar voru í dag.

Á tímabilinu létust 6.946 landsmenn úr blóðrásarsjúkdómum, en það er tæplega þriðjungur allra látinna, eða 32%. Þar á eftir létust 6.170 úr æxlum, eða 28,4% látinna. Þá létust 2.286 úr sjúkdómum í taugakerfi, eða 10,5% og 1.840 létust úr sjúkdómum í öndunarfærum, eða 8,5%.

Tölur um dánarmein byggjast á dánarvottorðum allra sem létust á tímabilinu og áttu lögheimili á Íslandi við andlát.

Skjáskot/Hagstofan

Stærsti munur milli kynja er vegna andláta sem tengjast taugakerfi og skynfærum, en það var orsök andláta hjá 8,5% karla og 12,5% kvenna.

Þegar rýnt er í dánarmein hjá yngri aldursflokkum kemur í ljós að dánarmein skiptast þar með öðrum hætti en þegar horft er til dánarmeina allra. Fram að 34 ára deyja til að mynda flestir úr ytri orsökum eða 55,2%. Töluverður munur er á kynjunum en 61% karla deyja af ytri orsökum á móti 42% kvenna

Í aldursflokknum 35–64 ára deyja flestir úr æxlum eða 44%. Þar er einnig mikill munur á kynjunum þar sem mun fleiri konur (57%) deyja úr æxlum á þessu aldursskeiði en karlar (35%). Þó ber að hafa í huga í þessu samhengi að hlutfallslega færri deyja yngri en 65 ára eða einungis tæp 17% allra látinna yfir tímabilið 2011–2020.

Í aldursflokknum 65–79 ára eru æxli enn algengust með 43% hlutdeild á móti 26% vegna blóðrásarsjúkdóma en röðun annarra dánarorsaka er sama og fyrir heildarfjölda látinna. Hlutfallið breytist í elsta aldursflokknum, 80 ára og eldri, en þar eru blóðrásarsjúkdómar algengasta dánarmeinið með 39% hlutdeild miðað við tæp 19% fyrir æxli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert