Heimsþing um hita hafið í Hörpu

Strokkur í Haukadal. Heimsþing um hita er hafið í fyrsta …
Strokkur í Haukadal. Heimsþing um hita er hafið í fyrsta sinn í Hörpu. mbl.is/RAX

Heimsþing Alþjóðajarðhitasambandsins hófst í Hörpu í gær. Um er að ræða stærstu alþjóðlegu jarðhitaráðstefnu í heimi, sem haldin er í fyrsta sinn á Íslandi. Markmið ráðstefnunnar er að leiða saman helstu sérfræðinga, vísindamenn, stjórnvöld og aðra hagaðila til að ræða nýtingu auðlinda á sjálfbæran og vistvænan máta.

Formaður skipulagsnefndar heimsþingsins er dr. Bjarni Pálsson og segir hann þingið hafa verið í undirbúningi frá árinu 2013.

„Þetta er nokkuð stór viðburður, stærsti jarðhitaviðburður heims á þessu ári alla vega og einn sá stærsti sem hefur verið haldinn hér á landi. Það eru tvö þúsund manns skráðir en við gerum ráð fyrir að það verði um 1.100 hérna í Reykjavík og 900 sem munu taka þátt í gegnum netið frá 101 þjóðlandi,“ segir Bjarni í samtali við blaðamann.

Á ráðstefnunni sé einnig vörusýning með yfir fimmtíu básum frá hátt í hundrað fyrirtækjum og stofnunum. Einnig séu alls kyns hliðarviðburðir, námskeið, skoðunarferðir og fleira sem tilheyrir.

Ráðstefnan hefst formlega í dag, þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnar ráðstefnuna ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, og stendur fram á miðvikudag.

Ráðstefnan er haldin á fimm ára fresti. Upphaflega var stefnt að því að halda þingið í apríl í fyrra en vegna heimsfaraldurs kórónuveiru þurfti að gera miklar breytingar og færa hluta þess á netið fyrr á þessu ári. „Þetta er mikilvægur þáttur þar sem fulltrúar frá svo mörgum löndum koma og við drögum saman marga mismunandi hópa sem vinna í jarðhita og fáum þá til að ræða um sameiginlegar áskoranir fyrir þennan geira á heimsvísu,“ segir Bjarni, spurður um mikilvægi ráðstefnunnar fyrir fræðigreinina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert