Macchiarini fyrir dómstól í Svíþjóð

Læknirinn Paolo Macchiarini hefur verið ákærður fyrir gróft ofbeldi gegn …
Læknirinn Paolo Macchiarini hefur verið ákærður fyrir gróft ofbeldi gegn þremur sjúklingum sem létu lífið eftir skurðaðgerðir sem læknirinn framkvæmdi.

Þingfesting máls sænska ákæruvaldsins gegn skurðlækninum Paolo Macchiarini vegna plastbarkamálsins fer fram á morgun fyrir héraðsdómstólnum í Solna í Svíþjóð. Verjandi hans segir að það kunni að vera vakin athygli á gjörðum annarra lækna sem hluti af málsvörninni.

Ákæran snýr að skurðaðgerðum við Karólínska sjúkrahúsið þar sem plastbarka var komið fyrir í þremur sjúklingum á árunum 2011 og 2012, þeir létust allir. Macchiarini er eini sem ákærður er í málinu og er það fyrir gróft ofbeldi eða misþyrmingu og á hann yfir höfði sér langa fangelsisvist verði hann dæmdur.

Læknirinn framkvæmdi einnig aðgerðir af þessum toga á fimm öðrum utan Svíþjóðar og hafa þessir einstaklingar látist í kjölfar aðgerðanna. Alls eru því átta sjúklingar sem hafa látist vegna plastbarka-aðgerða Macchiarini.

Kann að benda á aðra lækna

Árið 2018 úrskurðaði rektor Karólínska háskólasjúkrahússins að sjö læknar hefðu gerst sekir um vísindalegt misferli. Þar á meðal var Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir við Landspítala, en sjúklingur hans, Andemariam Teklesenbet Beyene, var árið 2011 fyrsti til að undirgangast aðgerðina. Hann lést árið 2014.

Fram hefur komið í rann­sókn sænsku vís­indasiðanefnd­ar­inn­ar, og í skýrslu nefndar á vegum Landspítala og Háskóla Íslands vegna málsins, að Tómas hafi sagt ósatt um ástand sjúklingsins í tilvísun sinni til Macchiarini.

Björn Hurtig, verjandi Macchiarini, sagði í Dagens Medicin í gær að hluti af vörninni kunni að felast í að benda á aðra lækna sem hafa haft aðkomu að misheppnuðu plastbarka-aðgerðunum. Hurtig tjáir sig hins vegar ekki um það hvaða lækna sé átt við í þessu samhengi, eða hver aðkoma þeirra er að málinu.

Skaðabótamál

Við plastbarkamálið bætast aðrar aðgerðir sem Macchiarini framkvæmdi á Karólínska og er fyrir áfrýjunardómstóli Svea-umdæmis mál er snýr að því er hluti af barka sjúklingsins var fjarlægður. Sjúklingurinn fór undir hníf Macchiarini árið 2011 en kveðst aldrei hafa veitt samþykki fyrir aðgerðinni.

Heilbrigðisumdæmi Stokkhólms hefur neitað að bæta sjúklingnum tjónið og krefst sjúklingurinn nú að honum verði dæmdar skaðabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert