Þrír ákærðir fyrir framleiðslu ofskynjunarlyfja

Þrír karlmenn hafa verið ákærðir í um­fangs­miklu máli sem snýr að fram­leiðslu og sölu fíkni­efna, meðal ann­ars svo­kölluðu DMT of­skynj­un­ar­lyfi.

Eru þeir allir ákærðir fyrir framleiðslu á samtals 228 gr. af DMT efninu og 1.827 ml af sama efni. Fór framleiðslan fram í iðnaðarbili en einnig fundust efnin í íbúð. Var það á tímabilinu 20. nóvember í fyrra til 3. desember.

Einn hinna ákærðu er jafnframt ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum 2.605 ml af vefaukandi steralyfjum og 1.374 stk. af sömu sterum.

Annar hinna ákærðu er ákærður fyrir að hafa haft í fórum sínum 80 grömm af kókaíni og sá þriðji fyrir að hafa haft nokkur grömm af amfetamíni og kannabisefnum auk 27 kannabisplantna. Eru þeir tveir fyrrnefndu taldir hafa ætlað að selja og dreifa efnunum.

Fram kom í fréttum þegar málið kom upp að á annan tug húsleita hefðu verið framkvæmdar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og voru þær sagðar liður í bar­átt­unni gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi. Var meðal ann­ars leitað aðstoðar pólskr­ar lög­reglu­yf­ir­valda og Europol.

DMT (N,N-Dí­met­hýl­trypta­mín) er of­skynj­un­ar­efni sem m.a. er að finna í suður-am­er­íska seyðinu Aya­husca sem ætt­bálk­ar í Amazon skóg­in­um hafa notað um ára­bil í at­höfn­um. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert