Verkefnið snúist ekki um að sópa fólki út

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands.
Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðkoma Alþýðusambandsins að samstarfsverkefninu Örugg búseta fyrir alla snýst um að ná til þeirra fjölda félagsmanna sem búa í atvinnuhúsnæðum á höfuðborgarsvæðinu. Tilgangurinn sé þó ekki að sópa þeim út á götu. Þetta segir Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, á blaðamannafundi þar sem kynning á verkefninu fór fram í dag.

„Við höfum áhuga á að ná í þetta fólk til þess að upplýsa það um réttindi sín á vinnumarkaði, réttindi sín sem leigjendur og auðvitað að taka þátt í þessu samfélagslega verkefni sem er að binda enda á búsetu í óviðunandi húsnæði og tryggja öryggi fólks þar sem það er.“

Ákveðinn hópur fólks treysti ekki yfirvöldum

Á blaðamannafundinum sagði Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu að bankað yrði upp á hjá öllum atvinnuhúsnæðum í höfuðborginni, rætt við bæði eigendur og íbúa og reynt að finna lausnir.

Innt eftir því segir Halla allan gang á því hvernig menn geta brugðist við heimsóknum af þessu tagi og því skiptu miklu máli hvernig verkefnið er nálgast.

„Þetta gengur ekki út á að ganga inn í hús og sópa fólki þaðan út í húsnæðisóöryggi eða að ógna atvinnuöryggi þess. Þvert á móti gengur þetta út á að gera fólk öruggt þar sem það er núna en líka að kortleggja stöðuna á höfuðborgarsvæðinu til að byrja með.

Ég get þó alveg ímyndað mér að það verði ákveðinn hópur sem treystir ekki yfirvöldum og óttast einhver slík afskipti. Þess vegna kemur verkalýðshreyfingin inn í þetta líka. Við erum ekki yfirvald. Við erum með fólkinu.“

Eftirlitsfulltrúar þjálfaðir í samskiptum

Tungumál ætti ekki að vera hindrun í verkefninu enda tali eftirlitsfulltrúarnir samanlagt sjö tungumál, að íslensku meðtaldri auk þess að hafa hlotið þjálfuní menningarlegum samskiptum, að sögn Höllu.

„Síðan erum við með þjónustu sem heitir Language line, sem er túlkaþjónusta í gegnum síma. Í hana er hægt að hringja og fá rauntímatúlkun á nánast hvaða tungumáli sem er. Þá er bara túlkur einhverstaðar úti í heimi sem að við tengjumst og hann túlkar svo á milli. Þannig við náum utan um svolítið vítt svið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert