180 sýni og ekkert jákvætt

Egilsstaðir - miðbær Egilsstaða
Egilsstaðir - miðbær Egilsstaða mbl.is/Arnar Þór

Af þeim ríflega hundrað og áttatíu sýnum sem tekin voru á Egilsstöðum á föstudag reyndist ekkert þeirra jákvætt. Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðarstjórnar lögreglunnar á Austurlandi sem birtist á Facebook síðu lögreglunnar.

Í tilkynningunni segir þá einnig að útlit sé fyrir að íbúar á Austurlandi hafi „sloppið  með skrekkinn“ í þetta sinn. Smit hafa verið að greinast á Austurlandi undanfarna daga og hafa þau verið nokkuð dreifð um svæðið. Aðgerðarstjórnin telur þó að líklegt sé að búið sé að ná utan um stöðuna.

Loka þurfti leikskólanum Tjarnarlandi á Egilsstöðum nú á föstudag vegna smitanna. Tjarnarland verður opið á morgun eftir niðurstöður víðtækrar sýnatöku á föstudag.

Ganga lengra í sóttvarnaráðstöfunum 

Aðgerðarstjórnin bendir einnig á í tilkynningunni að þrátt fyrir góðar niðurstöður úr skimunum þá sé ljóst að staðan sé viðkvæm á landsvísu og lítið megi út af bregða.

Fólk er því hvatt til þess að huga vel að persónubundnum smitvörnum og þá eru þeir sem standa fyrir viðburðum í aðdraganda jóla hvattir til þess að taka „jafnvel aukaskref í átt að hertum vörnum þar sem þess er kostur“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert