Erill hjá björgunarsveitum í upphafi dags

Flest verkefni björgunarsveita í dag hafa verið vegna þakplatna.
Flest verkefni björgunarsveita í dag hafa verið vegna þakplatna. Ljósmynd/tók Sigurður Ó. Sigurðsson/Landsbjörg

Gular viðvaranir eru í gildi víða á landinu vegna mikils hvassviðris en fyrsta útkall björgunarsveita vegna óveðurs barst á ellefta tímanum í dag.

Útkallið kom frá Borgarnesi en þar var tilkynnt um fok á þakplötum, þakklæðningum og lausamunum.

Mikið foktjón vegna óveðurs

„Um klukkan tólf bætti töluvert í og hafa björgunarsveitir víða á suðvesturhorni landsins verið kallaðar út (Kjalarnes, Reykjavík, Grindavík, Suðurnes, Mosfellsbær og Hafnarfjörður).

Í öllum tilfellum er um að ræða foktjón vegna óveðurs, þakklæðningar, girðingar, ruslatunnuskýli, garðskúr og aðrir lausamunir,“ segir í tilkynningu frá slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Þá fauk vinnuskúr á hliðina í Mosfellsbæ og gámur fauk við höfnina í Grindavík.

Fólk er hvatt til þess að fara varlega og vera ekki á ferðinni að óþörfu á meðan mesta veðrið gengur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert