Ómíkron-smitaðir á Skaga með væg einkenni

Af Akranesi þar sem tólf hafa smitast af Ómíkron-afbrigðinu.
Af Akranesi þar sem tólf hafa smitast af Ómíkron-afbrigðinu. mbl.is/Sigurður Bogi

Enginn þeirra tólf sem hafa smitast af Ómíkron-afbrigðinu á Akranesi hefur veikst alvarlega að sögn umdæmislæknis sóttvarna á Akranesi. Smitrakning hefur gengið vel hingað til en öll Ómíkron-smit sem hafa greinst hér á landi tengjast Akranesi. 

Bæjarstjóri Akraness, Sævar Freyr Þráinsson, segir bæjarbúa taka fregnunum af „mikilli yfirvegun og rósemi. Fréttir af því að þó þetta afbrigði virðist vera mjög smitandi verði fólk ekki mjög veikt passar við þær upplýsingar sem ég hef fengið.“

Öll smit tengjast Akranesi

Hann segir skólahald áfram verða með reglubundnum hætti í vikunni ef staðan helst óbreytt. „Það er ekkert sem bendir til þess að þetta muni hafa þau áhrif að við þurfum að gera breytingar.“

Þórir Bergmundsson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands og umdæmissóttvarnalæknir Vesturlands, segir smitrakningu ganga vel.

Öll þau tólf smit sem hafa greinst af afbrigðinu Ómíkron hér á landi eru bundin við Akranes og að sögn Þóris er auðvelt að skýra út hvernig smitin hafi borist á milli einstaklinga

Tala um „mild flensueinkenni“

„Þetta er tiltölulega einfalt ennþá. Það er nokkuð ljóst hvernig þetta hefur farið á milli einstaklinga,“ segir Þórir en engin þeirra sem smituðust hefur veikst alvarlega.

Þórir segist hafa talað við nokkra þeirra sem greindust með afbrigðið og lýsir því sem hann hafi heyrt sem „mildum flensueinkennum“.

Gerir ráð fyrir því að opna lyflækningadeild eftir helgi

Þórir gerir ráð fyrir því að geta opnað lyflækn­inga­deild Sjúkra­húss­ins á Akra­nesi aftur í vikunni en henni var lokað fyrir helgi vegna smita Ómíkron-afbrigðisins. 

„Ég geri fastlega ráð fyrir því að ef sýnatökur dagsins í dag leiði ekkert óeðlilegt í ljós muni regluleg starfsemi hefjast mjög fljótlega eftir helgina. Við eigum eftir að fara í sýnatökur af starfsmönnum og sjúklingum en það er þriðji umgangur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert