Smitaður á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Patreksfjörður. Sjúkrahús bæjarins er fremst á myndinni.
Patreksfjörður. Sjúkrahús bæjarins er fremst á myndinni. Ljósmynd/Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Kórónuveirusmit hefur verið staðfest hjá starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði. Búið er að skima alla starfsmenn og alla skjólstæðinga á legudeildinni.

Þetta kemur fram í færslu stofnunarinnar á Facebook.

„Í ljósi þess að nú hefur verið staðfest smit hjá starfsmanni Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða á Patreksfirði hefur viðbragðsstjórn stofnunarinnar á suðursvæði ákveðið að setja starfsstöðina á óvissustig fram á miðvikudag,“ segir í færslunni. 

Heimsóknir óheimilar í bili

Þrettán starfsmenn eru komnir í sóttkví og verður öll starfsemi stofnunarinnar því í lágmarki næstu viku.

„Vakthafandi læknir mun meta hvaða skjólstæðinga þarf að hitta en viðtöl sem ekki eru brýn kunna að verða felld niður. Ungbarnavernd, mæðravernd, blóðprufur og sjúkraþjálfun falla niður nema í bráðatilvikum,“ segir í færslunni.

Búið er að manna legudeildina næstu daga með fólki sem ekki var útsett fyrir smiti. Heimsóknir eru ekki leyfðar á legudeildina þangað til annað verður ákveðið.

„Þau smit sem komið hafa upp núna tengjast fyrra hópsmiti. Formleg sóttkví er fimm dagar. Alltaf er möguleiki á að smit greinist ekki við lok sóttkvíar en taki sig upp í kjölfarið. Það er því mikilvægt að fara varlega fyrstu daga eftir að sóttkví lýkur og fara í sýnatöku við minnstu einkenni,“ segir í færslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert