Vöknuðu við drunur úr Reynisfjalli

Skriðan skildi eftir myndarlegt sár í fjallinu.
Skriðan skildi eftir myndarlegt sár í fjallinu. Ljósmynd/Aðsend

Skriða féll úr Reynisfjalli, suðvestur frá bænum Vík, á fimmta tímanum í morgun. Skriðan var ekki stór en henni fylgdu talsverðar drunur sem vöktu íbúa á svæðinu.

„Konan mín vaknaði við þetta og spurði hvaða læti þetta hafi verið,“ segir Þórir Níels Kjartansson, íbúi á Vík, í samtali við mbl.is.

Samkvæmt Þóri eru skriður ekki óalgengar á þessu svæði og því hafi þau hjónin lítið kippt sér upp við lætin sem höfðu vakið þau úr værum svefni.

Hann hafi þó ákveðið að kanna aðstæður í morgun og sá þá sár í fjallinu sem staðfesti grun þeirra hjóna um að skriða hafi fallið.

„Þetta var nú ekki stórt. Það var lítið af stórum steinum í þessu. Þetta er mest jarðvegur sem hefur runnið af fjallinu. Þetta náði ekki alveg niður að göngustígnum.“

Þrátt fyrir að skriður af þessu tagi séu algengar á svæðinu eru engin hús á svæðinu í hættu vegna þeirra, að sögn Þóris.

„Það er ekki talið að svo sé. Veðurstofan hefur gert hættumat á svæðinu og það er ekki útilokað að það geti fallið snjóflóð á örfá hús en það er mjög langsótt.“

Á þessari mynd er nýja skriðan merkt nr. 8.
Á þessari mynd er nýja skriðan merkt nr. 8. Kort/Þórir Níels Kjartansson



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert