Bækur þjónuðu sem verðmæli en líka sem þekkingarhlaða

Guðrún Ingólfsdóttir hefur rannsakað bókmenningu og handritaeign kvenna og gefið út bækur um það efni. Hún segir að rannsóknir hennar hafi sýnt fram á að bækur hafi þjónað sem verðmæli en líka sem þekkingarhlaða fyrir þann sem átti bókina.

Guðrún réði sig í skráningu handrita fyrir Árnastofnun og komst þá í tæri við handrit með fjölþætt efni. Í framhaldi af því velti hún því fyrir sér hvernig efnisvalið í slíkum handritasyrpum, sem hún segir einskonar bókasafn í einni bók, varpi ljósi á sjálfsmynd þess sem safnar, heimsmynd og þekkingargrunni. „Kirkjan var með einokun á prentverki, prentaði nánast eingöngu trúarleg rit og allt veraldlegt efni dreifðist í handritum. Fólk átti kannski ekki mjög margar bækur, en var kannski með bókasafnið í einni bók.“

Í rannsókninni segir Guðrún að sér hafi gengið illa að finna handrit sem væru eftir konur og því hafi hún snúið sér að handritum sem væru skrifuð fyrir konur. „Ég fann eitt handrit sem eiginmaður skrifaði fyrir eiginkonu sína og sá það að ef ég ætlaði að skrifa um þetta handrit af einhverju viti yrði ég að fá nasasjón af handritamenningu kvenna. Ég gerði því litla rannsókn um handritaeign kvenna sem varð viðbætir við doktorsritgerðina mína, skoðaði bara handritin á Árnastofnun.

Þegar einn andmælendanna var að kveðja mig í lok doktorsvarnarinnar spurði hann mig hvort ég hefði skrifað um sama efni ef ég hefði vitað allt sem þú vissi í dag. „Ég hugsaði mig um smástund og svaraði svo: nei ég hefði skrifað um konurnar. Örfáum dögum seinna ákvað ég að byrja á rannsókn um handritamenningu kvenna og afraksturinn er Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar," segir Guðrún og bætir við að í rannsókn hennar hafi komið fram að konur hafi notað bækur á ákveðinn máta. „Bækur þjónuðu sem verðmæli en líka sem þekkingarhlaða fyrir þann sem átti bókina, birgðageymsla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert