Bjóða upp á göngutúr fyrir kattavini

Frægustu kettir miðbæjar verða heimsóttir í göngutúrunum.
Frægustu kettir miðbæjar verða heimsóttir í göngutúrunum. Ljósmynd/Aðsend

Ferðaþjónustufyrirtækið Your Friend in Reykjavík færir kattavinum flunkunýjan göngutúr á nýju ári:  Í klóm kattarins – The Reykjavík CatWalk, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Að sögn Vals Heiðars Sævarssonar, eiganda Your Friend in Reykjavík, verður byrjað að bjóða upp á göngutúrana í febrúar og verða þeir á laugardögum og sunnudögum klukkan tvö. Auk þess er hægt að bóka göngur fyrir hópa.

„Það er ótrúlegur fjöldi af frægum köttum í miðbæ Reykjavíkur og langt umfram höfðatölu að sjálfsögðu," segir Valur.

Frægustu kettir miðbæjarins heimsóttir

„Í þessum göngutúr, sem er einstakur á heimsvísu, verða nokkrir af frægustu köttum miðbæjar Reykjavíkur heimsóttir og gestir fræddir um þá. Af hverju á Baktus heima í Gyllta kettinum? Hvað er það við IceWear-búðina sem heillar Ófelíu? Er Negull eins mjúkur og hann lítur út fyrir að vera? Eins verður Kattakaffihúsið á Bergstaðastræti heimsótt þar sem gestir fá að klappa köttum í heimilisleit og smakka íslenskt góðgæti,“ segir í tilkynningu.

Barði Guðmundsson og kötturinn Baktus.
Barði Guðmundsson og kötturinn Baktus. Ljósmynd/Aðsend

Valur segir fyrirtækið áður hafa tengt kattarsögu inn í borgargöngutúrana þeirra og þeim hafi síðan í kjölfarið dottið í hug að bjóða upp á kattagöngutúra enda einhverjir hópar sýnt Baktusi og fleiri köttum áhuga.

„Við erum búin að skoða þetta erlendis og það er enginn sem er að bjóða upp á eitthvað svipað. Þannig það var bara tilvalið að bjóða upp á kattagöngutúr,“ segir Valur en Barði Guðmundsson, sem titlaður er kattakóngur í tilkynningunni, mun leiða göngurnar.

Kettir elska athygli

Aðspurður segir Valur að kettirnir taki þessum áhuga mjög vel. „Þeir náttúrulega bara elska athygli, oftast nær. Þannig að það er bara skemmtileg viðbót að kynna þá til leiks og segja hvaðan þeir koma. Síðan erum við náttúrulega að tala um kattaþjóðsögur og kattaguði og alls konar sögur tengdum köttum.“

Fylgjendur Your Friend in Reykjavík hafa sýnt göngunum mikinn áhuga á Facebook þar sem þeir hafa verið auglýstir í beinu streymi. Þá hafa margir sagst ætla í kattagöngutúr í næstu ferð til Íslands.

Your Friend in Reykjavík býður upp á gönguferðir í Reykjavík …
Your Friend in Reykjavík býður upp á gönguferðir í Reykjavík í fylgd leiðsögumanns. Ljósmynd/göngutúr

Valur segir göngutúrana fyrst og fremst hugsaða fyrir erlenda ferðamenn en að stundum berist þó einnig fyrirspurnir frá hópum og fyrirtækjum. Þá hafi einn saumahópur sérstaklega beðið um að tengja saman aðra göngu við kattagöngutúr. „Þannig þetta er svona ekta fyrir saumaklúbba og vinahópa,“ segir Valur.

„Það er hægt að tvinna þetta með öðru, við bjóðum upp á kakó og kleinur eða súkkulaðiköku á kattakaffihúsinu. En fólk getur, eins og síðasti hópur, tvinnað þetta með öðrum sterkari drykkjarföngum. Þannig það er alveg hægt að tvinna þetta alls konar saman,“ segir Valur.

Hægt er að bóka kattagöngutúr hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert