Umræða um skort á kisum „algjörlega út í hött“

Kisur á vergangi hafa aukist mikið undanfarið.
Kisur á vergangi hafa aukist mikið undanfarið. mbl.is/Golli

„Þessi umræða um að það sé ekki hægt að fá kisur og kettlinga er algjörlega út í hött,“ segir Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta, í samtali við mbl.is en borið hefur á umræðu á samfélagsmiðlum um að erfitt sé að fá kettling hérlendis og jafnvel talað um kattaskort. 

Arndís segir að mikil aukning sé á vergangskisum, eða köttum sem hafa verið gæludýr en af einhverjum ástæðum eru orðnir heimilislausir.

„Við erum með fullt af kisum, bæði fullorðnum og kettlingum,“ segir Arndís og bætir við að samtökin taki við um 600 köttum á ári, þ.m.t. eru villikettir, vergangskisur og kettlingar sem fæðast inni á fósturheimilum.

Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta.
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, formaður Villikatta. Rax / Ragnar Axelsson

„Hlutfallið hefur hingað til verið um 400 villikettir og um 200 vergangskettir. Nú er þetta breytt ástand. Það má segja að hlutfallið sé öfugt, um 200 villikettir og 400 vergangskisur,“ segir hún og bætir þó við að fjöldi katta sem Villikettir tók við hafi þó verið minna í fyrra en flest önnur ár.

Átak í að gelda villiketti

Hún segir að ein af ástæðum fækkunar villikatta er átak sem samtökin hafa staðið í að gelda þá. 

„Það er ekki þessi kettlingaframleiðsla hjá villiköttum í gangi lengur. Þannig að villikisum fer fækkandi á náttúrulegan hátt.“

Arndís segir það þó vera ákveðið vandamál að fólk taki að sér kisu, örmerki hana ekki né geldi. Þegar kisan fer síðan út er voðinn vís, „þá getur komið aftur villikattnýlenda.“

18 til 20 ára ábyrgð

„Ég er ansi hrædd um það að það hafi margir tekið að sér kisu síðustu ár og ekki gert sér grein fyrir að þetta er 18 til 20 ára ábyrgð.“

Hún biðlar til fólks að hafa samband við Villiketti ef aðstæður breytast á heimilum eða vandamál koma upp með kisurnar heldur en að dýrin fari á vergang. 

Arndís segir að flestir vergangskettir þurfi að læra að treysta mannfólki aftur er þeir komi til Villikatta. 

Við reynum alltaf að hjálpa fólki eftir bestu getu. Við höfnum engri kisu, það er kannski þess vegna sem öll okkar fósturheimili eru full af kisum í dag,“ segir Arndís og bætir við að best sé að hafa samband við Villiketti á Facebook síðu samtakanna í þeim landshluta sem fólk býr í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert