ÁTVR braut gegn stjórnarskrá í bjórdeilu

Deilt var um það hvort ÁTVR væri heimilt að byggja …
Deilt var um það hvort ÁTVR væri heimilt að byggja ákvörðun á framlegð umræddra vara og í öðru lagi hvort brotið hafi verið gegn andmælarétti Dista þegar ákvarðanirnar voru teknar. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fellt úr gildi tvær ákvarðanir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á þeim forsendum að þær hafi brotið í bága við 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu íslensks réttar.

ÁTVR var jafnframt gert að greiða Dista 1.750.000 kr. í málskostnað. 

Heildverslunin Dista ehf. höfðaði mál á hendur ÁTVR í júní í fyrra þar sem þess var krafist að tvær ákvarðanir ÁTVR, sem voru tilkynntar í janúar og í maí 2021, um að fella niður tvær vörutegundir og hætta innkaupum á þeim yrðu ógiltar. Um er að ræða tegundirnar Faxe Witbier og Faxe IPA í hálfslítra dósum. 

ÁTVR hélt því fram að að umræddar tegundir væru felldar úr vöruúrvali Vínbúðanna og innkaupum hætt þar sem vörutegundin hefði lokið lágmarks sölutíma í kjarnaflokki án þess að ná tilskildum söluárangri, og var í því efni vísað til framlegðarskrár. 

Taldi ekki rétt staðið að ákvörðunum og efast um þeirra lögmæti

Dista hélt því fram að ekki hefði verið rétt staðið að þessum ákvörðunum og efaðist jafnframt um lögmæti þeirra. Deilt var um það hvort ÁTVR væri heimilt að byggja ákvörðun á framlegð umræddra vara og í öðru lagi hvort brotið hafi verið gegn andmælarétti Dista þegar ákvarðanirnar voru teknar. Þá var deilt um það hvot ákvarðanirnar hafi verið teknar af réttum aðila og hvort ÁTVR hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína. Einnig var ÁTVR sakað um að hafa brotið gegn jafnræðisreglu eða réttmætareglu eða sýnt af sér óvanda stjórnsýsluhætti. Loks var deilt um rökstuðning ÁTVR og hvort málshraðaregla hafi verið brotin. 

Að mati héraðsdóms var hvorki hægt að fallast á það …
Að mati héraðsdóms var hvorki hægt að fallast á það að miða ætti við framlegð Dista frekar en eftirspurn kaupenda við val á vörum til sölu í kjarnaflokki né að hærra verð vöru jafngildi í öllum tilvikum auknum gæðum hennar. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Í dómi héraðsdóms, sem féll í dag, segir, að óumdeilt sé að umræddar bjórtegundir Dista hafi ekki náð því að vera á meðal þeirra 50 vörutegunda í þeirri vöruvalsdeild sem þær tilheyrðu sem skiluðu mestri framlegið til ÁTVR. 

Dista byggði mál sitt á því að ÁTVR hafi verið óheimilt að byggja ákvarðanir sínar á framlegðarviðmiðum, sem hvergi sé minnst á í þeim lögum sem ákvarðanir byggist á. Þar með hafi verið brotið gegn 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og lögmætisreglu íslensks réttar. Dista taldi að horfa ætti til eftirspurnar vöru við vöruval en ekki til framlegðar. 

ÁTVR sagðist aftur á móti ótvírætt líta sem svo á það að nota framlegið sem árangursviðmið væri best til þess fallið að upfylla þau markmið sem sem birtast í lögum um verslun með áfengi og tóbak. 

Virðingarvert markmið sem réttlætir ekki að gengið sé á hagsmuni þeirra sem selja ódýrari vörur

Að mati héraðsdóms var hvorki hægt að fallast á það að miða ætti við framlegð Dista frekar en eftirspurn kaupenda við val á vörum til sölu í kjarnaflokki né að hærra verð vöru jafngildi í öllum tilvikum auknum gæðum hennar.

Héraðsdómur segir ennfremur, að það sé vissulega virðingarvert markmið hjá ÁTVR að tryggja gott vöruúrval í verslunum sínum, þ.m.t. úrval vandaðra vara í háum gæðaflokki. „Það réttlætir þó ekki að gengið sé á hagsmuni þeirra sem selja ódýrari vörur vilji kaupendur kaupa þær vörur frekar en þær sem vandaðri og dýrari eru. Auk þess eru sem fyrr segir aðrar leiðir til að tryggja áframhaldandi sölu dýrari og vandaðri vara, sem eftir atvikum njóta minni vinsælda hjá kaupendum en ódýrari vörur eða eiga sér þrengri kaupendahóp, til dæmis með sölu vara í reynsluflokki eða sérflokki.“

Þá tók héraðsdómur undir að ákvarðanirnar hefðu takmarkað atvinnufrelsi Dista. 

Dista byggði mál sitt á því að ÁTVR hafi verið …
Dista byggði mál sitt á því að ÁTVR hafi verið óheimilt að byggja ákvarðanir sínar á framlegðarviðmiðum, sem hvergi sé minnst á í þeim lögum sem ákvarðanir byggist á. AFP

Skorti lagaheimildir

Einnig kemur fram, að ákvarðanir ÁTVR um að fella vörutegundirnar úr vöruúrvali í kjarnaflokki og hætta innkaupum á þeim „urðu samkvæmt því að vera í samræmi við 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og vera reistar á skýrri og ótvíræðri lagaheimild. Engu breytir í því samhengi þótt stefnandi hafi átt þess kost að selja vörur sínar öðrum eða skrá þær til sölu í öðrum flokkum stefnda.“

Það er niðurstaða héraðsdóms að ekki hafi verið talið heimilt að mæla fyrir um slíka takmörkun á atvinnufrelsi einstaklinga og lögaðila, þ.m.t. Dista, án skýrrar og ótvíræðrar lagaheimildar. Var því talið að lagaheimild hafi skort til setningar þeirrar efnisreglu sem mælt var fyrir um. 

Loks segir að ákvarðanir ÁTVR hafi byggt á reglugerðum sem hafi verið ólögmætar að mati dómsins, þar sem þær áttu sér ekki fullnægjandi stöð í lögum og brutu því bæði gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og gegn stjórnarskránni. 

Dómurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert