Sýnileikinn besta vopnið gegn hatrinu

María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir.
María Rut Kristinsdóttir og Ingileif Friðriksdóttir.

„Ég var búin að sitja dofin og grátandi yfir fréttunum frá Ósló þegar við ákváðum að gera eitthvað,“ segir Ingileif Friðriksdóttir aðgerðasinni og stofnandi Hinseginleikans. Hún, eiginkona hennar María Rut Kristinsdóttir og Hjalti Vigfússon standa fyrir samstöðufundi með Ósló á Austurvelli klukkan 17.00 í dag.

Tilefni fundarins er voðaverk sem var framið í Ósló, höfuðborg Noregs, á föstudagskvöld en þá skaut karlmaður tvo til bana og særði yfir tuttugu aðra fyrir utan hinsegin skemmtistað í borginni.

Viðburðurinn skipulagður með stuttum fyrirvara

Ingileif segir að þau þrjú hafi fyrir tveimur dögum ákveðið að efna til fundarins og segir hún augljóst að mikill samhugur sé í samfélaginu.

„Við ákváðum að í stað þess að leyfa hatri og hræðslu að buga okkur myndum við sýna samstöðu og vera sýnileg. Sýnileikinn er besta vopnið gegn hatrinu,“ segir Ingileif. Á annað þúsund hafa sýnt fundinum áhuga samkvæmt viðburðinum á Facebook og er Ingileif þakklát fyrir það og spennt fyrir deginum.

Fórnarlamba árásanna í Osló hefur verið minnst.
Fórnarlamba árásanna í Osló hefur verið minnst. AFP

„Þetta er auðvitað þungt og erfitt og við erum að sýna samstöðu með Noregi og minnast þeirra sem féllu og eiga um sárt að binda. Auk þess viljum við fagna fjölbreytileikanum og ætlum að gleðjast saman,“ segir Ingileif. Auk ræðuhalda verða skemmtiatriði en Páll Óskar tekur meðal annars lagið.

Bakslag í réttindum hinsegin fólks

Hún segir bakslag í réttindum hinsegin fólks um allan heim og það sjáist líka hér á landi. Krafa fundarins er meðal annars sú að hinseginfræðsla verði aukin til muna í samfélaginu öllu.

Þá krefst fundurinn þess að á næstu fundum bæjar- og borgarráða sveitarfélaga sem og á Alþingi komi fram tillaga um aukin fjárútlát til hinseginfræðslu í gegnum Samtökin ‘78 fyrir börn í skólum, kennara, foreldra og alla aðra. Fordómar og ofbeldi byggja á fáfræði - fræðsla og sýnileiki séu okkar sterkustu vopn til að vernda okkar frjálsa lýðræðissamfélag.

„Hatursorðræða, áreiti og jafnvel ofbeldi gagnvart yngra hinsegin fólki er að aukast. Á seinasta ári voru þrjú ungmenni undir 16 ára sem tóku eigið líf í Reykjavík en þar af voru tvö þeirra hinsegin. Ég veit að börn hafa lifað við hræðslu við að vera þau sjálf. Þetta er upp á líf og dauða og við verðum að taka þessu alvarlega,“ segir Ingileif.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert