„Maður vill auðvitað alltaf fá meira“

„Við tókum bara ákvörðun um að fara í þessa ríkisstjórn …
„Við tókum bara ákvörðun um að fara í þessa ríkisstjórn og gerðum það á félagslegum grunni,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég man nú eftir skoðanakönnun nokkrum dögum eftir að ég tók við sem formaður 2013 sem mældi mig með 5,3 prósent,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is, innt eftir viðbrögðum við nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Vinstri græn mælast þar með 7,2 prósenta fylgi en flokkurinn fékk 12,6 prósenta kosningu í alþingiskosningunum í haust.

„Þannig maður hefur nú séð ýmsa öldudali í sínu hlutverki og það er alveg ljóst að við erum í einum slíkum öldudal þegar kemur að fylgi,“ segir hún. Á sama veg hafi hún fengið heil 30 prósent í skoðanakönnun en aldrei í kosningum.

„Við erum auðvitað ekki í pólitík til þess að horfa á skoðanakannanir heldur ná árangri í okkar málum,“ segir Katrín. Þannig nálgist hún verkefnið; út frá málefnum en ekki könnunum.

„Það breytir því ekki að maður vill auðvitað alltaf fá meira.“

Best borgið í ríkisstjórn

Athygli vakti fyrr í sumar þegar Líf Magneudóttir, oddviti VG í borginni, ákvað að útiloka flokkinn frá meirihlutasamstarfi eftir að illa gekk í kosningum.

Spurð hvort hún telji hagsmunum flokksins betur borgið innan ríkisstjórnarinnar en í andstöðu líkt og í borginni, segir Katrín:

„Við tókum bara ákvörðun um að fara í þessa ríkisstjórn og gerðum það á félagslegum grunni. Það er alveg ljóst að mjög margt hefði orðið öðruvísi ef VG hefði ekki verið með í ríkisstjórn.“

Þar nefnir hún félagslegar áherslur í efnahagsmálum, mannréttindamál og aðgerðir í loftslagsmálum.

Auk þess séu stór mál framundan á borð við endurskoðun á almannatryggingakerfinu í tengslum við öryrkja auk mannréttindamála.

Athygli vakti þegar Líf Magneudóttir (fyrir miðju) ákvað að útiloka …
Athygli vakti þegar Líf Magneudóttir (fyrir miðju) ákvað að útiloka flokkinn frá meirihlutasamstarfi í borginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Alltaf samtal innan grasrótar flokksins

Katrín segir að Vinstri græn hafi staðið við félagsleg sjónarmið í gegnum heimsfaraldurinn. „Og það skiptir gríðarlegu máli að þau verði áfram að leiðarljósi þegar aðrar áskoranir blasa við í efnahagsmálum. Þannig við teljum okkur fullt erindi en að sjálfssögðu þurfum við eitthvað að gera betur í því að tala við kjósendur út frá þessum skoðanakönnunum.“

Er friður innan grasrótar flokksins?

„Við erum með mjög öfluga grasrót og að sjálfsögðu er alltaf heilmikið samtal innan grasrótarinnar. Ég verð ekki vör við annað en það sé mikil umræða, eins og alltaf, innan grasrótar VG,“ segir Katrín að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert