Opnaði ekki Óx til þess að fá stjörnu

Þráinn Freyr Vigfússon, eigandi veitingastaðarins Óx sem hlaut í dag Michelin-stjörnu, segir það ekki hafa verið markmiðið með opnun staðarins að fá stjörnuna eftirsóttu en að um frábæran heiður sé að ræða og að hann sé verulega stoltur af þessum áfanga. 

Þráinn tók við stjörnunni í dag á athöfn í Stafangri í Noregi þar sem nýr leiðarvísir Michelin fyrir Norðurlöndin var kynntur. Þráinn segir í samtali við mbl.is að um frábæran heiður sé að ræða. „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig og þetta er mikil viðurkenning fyrir þá hugsjón sem er á bak við staðinn, að gera eitthvað allt annað en aðrir eru að gera,“ segir Þráinn og vísar þá til þess að snið staðarins er heldur óhefðbundið.  

Er Óx því annar íslenski veitingastaðurinn til að vera heiðraður með stjörnunni eftirsóttu. Veitingastaðurinn Dill er einnig með stjörnuna en staðurinn endurheimti hana árið 2020 og hefur haldið henni síðan þá. Er þetta því í fyrsta skiptið sem tveir íslenskir staðir eru með hana samtímis.

Í myndskeiðinu hér fyrir neðan er hægt að sjá augnablikið þegar Þráinn tók á móti stjörnunni ásamt Rúnari Pierre Heriveaux, yfirkokknum á Óx. 

Hér má sjá þá Þráin Freyr Vigfússon, fyrir miðju og …
Hér má sjá þá Þráin Freyr Vigfússon, fyrir miðju og Rúnari Pierre Heriveaux, til hægri, taka á móti Michelin-stjörnunni. Ljósmynd/Aðsend

Lítill og óhefðbundinn staður

Óx tekur aðeins ellefu gesti í sæti sem sitja allir við sama borð. Borðið umkringir kokkana sem elda fyrir framan gestina. Að sögn Þráins skilar þessi smæð staðarins sér í auknum gæðum fyrir viðskiptavini. „Það segir sig nokkurn veginn sjálft að þegar þú ert að elda fyrir ellefu í stað hundrað manns þá er mikill gæðamunur á því og miklu meiri nánd sem er hugmyndin að Óx.“

Aðspurður segir hann þessa viðurkenningu vera frábæra auglýsingu fyrir veitingastaðinn.  

Spurður hvort að þetta hafi verið draumur lengi hjá Óx segir Þráinn að það hafi ekki endilega verið ætlunarverkið. „Ég opnaði ekki Óx til að fá stjörnu en þetta er auðvitað gífurleg viðurkenning og maður er þakklátur og stoltur.“

Tímaspursmál hvenær fleiri staðir bætist í hópinn

Hann segir það frábæra viðurkenningu að vera einn af tveimur veitingastöðum á Íslandi til að hljóta stjörnuna og tekur fram að hann sé spenntur fyrir því að fleiri staðir bætist í hópinn. „Þetta er vonandi bara byrjunin. Það verða klárlega fleiri staðir í framtíðinni og það er bara spurning hvenær,“ segir Þráinn og bætir við að því fyrr sem það gerist, því betra. 

Hann segir leyndarmálið á bak við þessa velgengni vera að þau hjá Óx stefni alltaf að því að gera betur í dag en í gær. Að lokum þakkar Þráinn yfirkokknum á staðnum Rúnari  og öllu starfsfólkinu sem hefur komið að þessu verkefni. „Bara allir sem hafa gert þetta að veruleika og gera þetta að veruleika á hverjum degi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert