„Það má í raun rekja þetta allt saman til hans“

„Við þurf­um að hafna fullt af fólki sem er ekki …
„Við þurf­um að hafna fullt af fólki sem er ekki markhópur okkar teymis en er samt greini­lega með mikla þörf fyr­ir þjón­ustu,“ segir Íris Björk Indriðadóttir. mbl.is/Kristvin Guðmundsson

Skortur er á sálfræðiþjónustu fyrir fólk með þroskaraskanir, að sögn sálfræðings sem nýverið brást við þörfinni með því að byrja að bjóða upp á slíka þjónustu. Sjálf ólst hún upp með bróður með Downs heilkenni og segir hún að rekja megi áhugann á þjónustu við fatlaða til bróðurins. 

Sálfræðingurinn, Íris Björk Indriðadóttir, hefur stefnt að því að aðstoða fólk með þroskaraskanir alveg síðan hún hóf nám í sálfræði. Hún hefur starfað lengi með fötluðu fólki, bæði í sumarbúðum fyrir fatlaða og í þjónustu við fólk í búsetu.

„Það má í raun rekja þetta allt saman til hans,“ segir Íris, spurð hvort Atli Már Indriðason, bróðir hennar, eigi einhvern þátt í því að hún ákvað að fara að vinna með fötluðu fólki.

Íris skrifaði bakkalár ritgerð um hamingju og lífsánægju einstaklinga með Downs-heilkenni og meistararitgerð um geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskaraskanir og skyldar raskanir í búsetu á Íslandi.

„Ég komst að því að mjög stór hópur er ekki með aðgang að geðheilbrigðisþjónustu. Nánast enginn [innan hópsins] er með aðgang að sálfræðingi. Þá er mjög stór hópur á geðlyfjum án þess að vera með greinda geðröskun,“ segir Íris um niðurstöður meistaraverkefnisins sem hún vann í samstarfi við nýstofnað geðheilbrigðisteymi taugaþroskaraskana hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í dag starfar Íris hjá teyminu.

Systkinin Íris og Atli. Bróðirinn hefur verið systur sinni mikill …
Systkinin Íris og Atli. Bróðirinn hefur verið systur sinni mikill innblástur.

Fá geðlyf án þess að hafa greinda geðröskun

Tilgátan sem sett er fram í ritgerðinni um ástæðu þess að stór hópur sé á geðlyfjum án þess að hafa greinda geðröskun er sú að marga geðlækna skorti þekkingu á þjónustu við hópinn og að heimilislæknar þjónusti hann gjarnan vegna vöntunar á geðlæknum.

„Svo eru mjög margir með hegðunarraskanir og þar sem það er ekki mikið í boði fyrir þann hóp þá eru  oft notað geðlyf til að reyna að hafa áhrif á vandamál í hegðun eða hegðun sem truflar daglegt líf,“ segir Íris.

Því meira sem hún fór að vinna með þessum hópi fólks fór hún að taka eftir því óréttlæti sem einstaklingarnir voru beittir.

„Því meira sem ég fór að vinna tengt náminu þá fór maður að sjá hvað þessi hópur var aftast í röðinni í svo ótrúlega mörgu. Svo er ég með svo sterka réttlætiskennd að það fer illa í mig.“

Þurfti að berjast fyrir því sem fólkið átti rétt á

Í því samhengi nefnir Íris að það sé erfitt fyrir fólk innan félagsþjónustunnar að fá þá sálfræðiþjónustu sem það á rétt á.

„Ég vissi af svo mörgum réttindum sem fólk vissi oft ekki af, enginn var að segja þeim frá þeim. Það þurfti alltaf að berjast fyrir því sem ég vissi að þau ættu rétt á. Þegar ég byrjaði í náminu mínu fór ég að lesa mér meira til um þennan hóp og sá að það var bókstaflega engin þjónusta í boði fyrir hann á Íslandi þegar ég byrjaði að skoða þetta. Nýlega er búið að stofna þetta teymi sem ég er í, sem er í rauninni fyrsta geðheilsuúrræðið fyrir einstaklinga með þroskahömlun eða tengdar raskanir,“ segir Íris og á þá við geðheilsuteymi taugaþroskaraskana hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Systkinin Atli Már, Dagný Birna og Íris Björk Indriðabörn.
Systkinin Atli Már, Dagný Birna og Íris Björk Indriðabörn.

Þyngsti endinn hjá teyminu

Teymið var stofnað fyrir rúmu ári síðan og hefur spurn eftir þjónustu þess verið veruleg. Biðlistar eru orðnir langir en einungis átta manns vinna hjá teyminu, af þeim aðeins þrjú í fullu starfi. Teymið á samt sem áður að sinna fólki með greinda þroskahömlun og alvarlegan núverandi geðrænan vanda á landinu öllu.

„Við erum að taka þyngsta endann, þetta er fólk sem er með greinda þroskahömlun og alvarlegan geðrænan vanda. Það er náttúrulega fullt af fólki sem er ekki með greinda þroskahömlun, er kannski bara með þroskaskerðingu eða er bara með venjulegan tilfinningalegan vanda sem á kannski ekki heima í geðheilbrigðisteymi en er samt ekki með aðgang að sálfræðing eða einhverju slíku,“ segir Íris.

„Við þurf­um að hafna fullt af fólki sem er ekki markhópur okkar teymis en er samt greini­lega með mikla þörf fyr­ir þjón­ustu.“

Þetta fólk fellur því á milli skips og bryggju en Íris leitast við að þjónusta það fyrir utan vinnu sína hjá teymi heilsugæslunnar. Í sjálfstæða starfinu hugsar hún því um fólk á hinum endanum, fólk með vægari vanda en þann sem teymið fæst við en þarf samt aðstoð sálfræðings.

Síðan hún hóf störf sjálfstætt fyrir skömmu hefur hún fengið þó nokkrar fyrirspurnir.

„Þörfin er mikil, það voru alveg frekar mikil viðbrögð og áhugi fyrir þessu. Ég veit hvað vöntunin er mikil og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að bæta aðeins við mig vinnu og fara út í þetta.“

Nánast ekkert í bóklega náminu um sálfræðiþjónustu við fólk með þroskaraskanir

Íris segist ekki hafa fundið fyrir því að mikill áhugi sé á meðal geðlækna og sálfræðinga að þjónusta hópinn. Mögulega megi skýra það með skorti á þekkingu og fræðslu.

„Það er nánast ekkert í bóklega náminu og ekkert tengt verklega náminu um sálfræðiþjónustu við fólk með þroskaraskanir. Það er því engin leið fyrir mann að læra um þetta nema maður standi í því sjálfur að leita sér þekkingarinnar,“ segir Íris sem segist aðspurð mjög ósátt við það að ekkert sé kennt um meðferðir fyrir hópinn í náminu.

„Þessi hópur getur að miklu leyti tileinkað þær aðferðir sem venjulega eru notaðar í öðrum meðferðum en það þarf kannski að eyða tíma í að aðlaga þær að viðkomandi einstakling.“

Aðspurð segir Íris að það sé hvetjandi að fá að aðstoða hópinn sem hún hafði áður orðið vitni að að þyrfti aðstoð.

„Sérstaklega þegar maður sér árangurinn. Við erum alveg búin að ná að útskrifa fólk úr þessu teymi þó svo að við séum nýbyrjuð og við erum að sjá mjög góðan árangur. Þetta er alveg hægt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert