Bærinn beri ábyrgð til að byrja með

Nýjum skiltum og stikum var komið upp á laugardaginn.
Nýjum skiltum og stikum var komið upp á laugardaginn. Ljósmynd/Björgunarsveitin Þorbjörn

Ekki hefur gefist tími til að kostnaðargreina þau verk sem Grindavíkurbær þarf að ráðast í vegna eldgossins í Meradölum, að sögn bæjarstjórans. Hann býst við að ríkið komi til með að hlaupa undir bagga en ekki liggur þó fyrir hvernig því verður háttað. Í fyrra sat bærinn uppi með 60 milljón króna nettókostnað vegna eldgossins.

Í síðustu viku barst bænum bréf frá almannavörnum þar sem óskað var eftir því að bæjarfélagið hefði frumkvæði að lagfæringu stíga og akstursleiða í þágu ferðafólks og svo hægt yrði að koma viðbragðsaðilum á svæðið á sem skemmstum tíma. 

„Það er talið nauðsynlegt að ganga í þetta þannig að bærinn ber ábyrgð á þessu til að byrja með. Svo verður verkefnið gert upp við ríkisvaldið þegar þar að kemur,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðaþjónustan nýtur góðs af

Um 60 milljón króna nettókostnaður féll á Grindavíkurbæ vegna umstangsins í kringum eldgosið í Geldingadölum á síðasta ári.

„Þetta er bara það sem við lásum út úr ársreikningi bæjarfélagsins. Kostnaður þar í alls konar deildum og sviðum sem við berum. Þetta er bara sá kostnaður sem verður eftir hjá okkur.

Hins vegar njóta náttúrlega ferðaþjónustufyrirtæki, veitingastaðir, gisting og fleiri fyrirtæki góðs af ferðamennskunni hingað og þá erum við á móti ánægð með það að þessi umferð skyldi fara hérna í bæinn. Það eru tekjupóstar líka, þótt það fari ekki beint í bæjarsjóð.“

Þykir þér eðlilegt að bærinn taki þennan kostnað á sig?

„Það má segja að Grindavíkurbær sé eina bæjarfélagið sem að ber beinlínis umtalsverðan kostnað af þessu. En það kemur til vegna þess að gosið á upptök sín í okkar landi og rennur þar og þannig er þetta bara. Hið opinbera hefur lagt mjög mikla fjármuni í almannavarnir og löggæslu og ýmislegt til að koma til aðstoðar. Bærinn ber ekki nema hluta af þessum kostnaði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert