„Það eiga ekki allir ömmur og afa til að redda málunum“

„Það eiga ekki allir ömmur og afa til að redda …
„Það eiga ekki allir ömmur og afa til að redda málunum,“ segir Sigurður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Sigurðsson, sérfræðingur hjá samtökunum Heimili og skóla, segir að sú staða að ársgömul börn í borginni fái síður leikskólapláss sé orðin venjubundið ástand og að grípa þurfi til róttækari lausna.

„Þetta er náttúrlega bagalegt fyrir fjölskyldur, að koma ekki börnunum sínum í leikskóla, og margir hafa greinilega gert ráð fyrir plássi, þar sem þeim var gefið loforð um það.“

Ekki góð staða fyrir foreldra

Hann telur hluta vandamálsins felast í manneklu en einnig sé vandinn tilkominn vegna húsnæðisskorts. Þá segir hann bráðabirgðahúsnæði vera ágætis lausn á síðarnefnda vandanum, en slíkt húsnæði sé misgott og er oft í talsverðri fjarlægð frá skólanum. 

„Þetta er ekki góð staða fyrir foreldra. Annað hvort þurfa þau að taka saman peninga til að finna barnapössun eða hindra atvinnuþátttöku annarra í fjölskyldunni til að einhver geti passað börnin.“

Telur að fólk hafi sætt við ástandið

Sigurður telur að fólk hafi sætt sig við ástandið en að það geti versnað. „Því næstu kynslóðir verða enn fjölmennari og því þarf að takast á við vandann fyrr en síðar.“

Hann bendir á að foreldrar séu í mismunandi aðstæðum og ekki allir geti auðveldlega orðið sér úti um barnapössun: „Það eiga ekki allir ömmur og afa til að redda málunum.“

„Við sjáum ekki mikið af lausnum í kerfinu þótt allir séu vissulega að gera sitt besta. Það þarf kannski stærri lausnir en hafa verið boðaðar hingað til, þar sem þetta virðist endurtaka sig hvert einasta ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert