Lokaðist yfir nyrsta gosopið í gær

Hraunáin tekur stefnu austur inn í Meradali.
Hraunáin tekur stefnu austur inn í Meradali. Ljósmynd/Roar Aagestad

Nyrsta gosopið á gosstöðvunum í Meradölum lokaðist í gær en eldgosið heldur þó áfram með sama krafti og undanfarna daga. 

Frá þessu er greint á Facebook-síðu eldfjalla- og náttúruváhóp Suðurlands. 

„Um skeið rann þó þaðan smá hraunbráð án þess að strókavirkni væri greinanleg, en nú í morgun er ekki að sjá að neitt hraun sé lengur að renna frá umræddu gosopi. Því lifir einungis megingígurinn áfram og má þar greina tvö gosop sem sífellt gusast úr,“ segir í færslunni. 

Hraunið breiðir úr sér ofan á gamla hrauninu

Hraunáin tekur áfram stefnu austur inn í Meradali. 

„Nýja hrauninu hefur ekki enn tekist að flæða yfir lægsta skarðið í dölunum, en hefur í stað þess verið að breiða úr sér ofan á hrauninu sem rann í fyrra sem og milli hrauns og hlíðar.“

Um miðja síðustu viku rann hraun upp að skarðinu en sú hrauntunga virðist nú tefja fyrir framrás nýs hrauns yfir umrætt skarð að einhverju leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert