Innflutningurinn „mjög falinn“

Krossönt eru á meðal þeirra vara sem mörg bak- arí …
Krossönt eru á meðal þeirra vara sem mörg bak- arí flytja inn í nokkru magni. mbl.is/Óttar

Sigurður Máni Helguson, framkvæmdastjóri handverksbakarísins Brauð og Co, veltir því fyrir sér hvort tímabært sé að gera kröfu til bakaría að upprunamerkja vörur sínar. 

„Við spáum lítið sem ekkert í því hvernig önnur bakarí haga sínum rekstri. En við erum fullfókuseruð á okkar rekstrarfyrirkomulag,“ segir Sigurður. Brauð og Co er á meðal þeirra bakaría sem baka sínar vörur á staðnum úr íslensku og lífrænu hráefni.

Er þetta ekki dálítið falið?

„Þetta er mjög falið. Það er ekki langt síðan kjötframleiðendur þurftu að staðfesta hvaðan hráefnið kemur, til dæmis hakk. Neytendasamtökin og fleiri eru mjög strangir á því að verðmerkingar á vörum séu skýrar og aðgengilegar.

Ætli þetta eigi ekki mögulega eiga heima þar líka? Ertu að kaupa krossant sem er búið til á Íslandi með íslensku vinnuframlagi eða ertu að kaupa krossant sem er búið til í einhverri verksmiðju úti í heimi?“ spyr Sigurður.

Brauð og co, Baka baka, Gulli Arnar, Brikk, Deig og …
Brauð og co, Baka baka, Gulli Arnar, Brikk, Deig og Brauðhúsið eru dæmi um handverksbakarí. Ljósmynd/Aðsend

„Kannski partur af því hvar við stöndum“

Telurðu nauðsynlegt að panta innflutt til þess að halda við rekstri?

„Við notum lífræn hráefni og okkar eigin hráefni. Það er náttúrulega kannski bara sérstaðan okkar. Kannski er það partur af því hvar við stöndum á markaðnum í dag og erum með þennan meðbyr, við gefum ekki afslátt af því þetta eru grunngildin okkar. Við þurfum ekki og ætlum ekki að breyta þessu.“

Inn­flutn­ing­ur á bakk­elsi nam 4.196 tonn­um árið 2021, í sam­an­b­urði við 3.268 tonn árið áður. Vör­urn­ar eru flutt­ar inn í meira mæli nú en árið 2013, þegar 2.178 tonn voru flutt inn.

„Bakarí eru búin að flytja inn forbakað eða fullbakað brauðmeti í fjölda ára. Þetta er ekki nýtt en magnið hefur kannski aukist síðustu árin,“ segir hann og bætir við að erfitt sé að segja til um ástæður þess að bakarar grípi til þessa ráðs.

Dýrt að framleiða

Það er dýrt að framleiða, sérstaklega þegar við erum stödd á eyju úti í Norður-Atlantshafi og við þurfum að flytja allt inn sjálf. Hráefnið kostar og vinnuframlagið kostar,“ segir Siggi en síðan sé ófyrirséður kostnaður, sem fylgi rýrnun. 

„Bakarí eru ólík veitingahúsum. Það er ekki hægt að panta borð hjá okkur og það er erfitt að segja til um hvort mikið verði að gera hvern einasta dag,“ segir hann.

„Síðan er undir hverjum og einum komið hvar hann staðsetur sig hvað varðar vöruframboð, rýrnun og fleira. Þegar kemur að rýrnun þá ertu ekki bara að henda hráefni eða vöru. Þú ert líka að henda vinnutímum, sem eru verðmæti. Ég er ekki að segja að ég skilji afhverju menn fara þessa leið en í lok dagsins er þetta bara rekstur. Og menn sjá kannski sparnað hér og þar,“ segir Siggi. 

Forunnar vörur orðnar betri en áður

Staðreyndin sé þó sú að forunnar bakkelsisvörur séu orðnar mjög góðar í dag. „Það hefur orðið gríðarleg þróun og menn hafa náð góðum árangri með verksmiðjuunnar vörur. fólk sem fær sér þetta er ekkert endilega að spá í þessu og finna ekki endilega muninn,“ segir Siggi. 

Þó snúist málið um gildi fyrirtækisins, og hvort það sé einlægt gagnvart sjálfu sér og viðskiptavinum. 

„Við felum ekki neitt og gefum ekki afslátt af þessu. Síðan er fullt af öðrum bakaríum að gera það gott, til dæmis Baka baka, Gulli Arnar, Brikk, Deig og Brauðhúsið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert