Sálfræðingur sagður starfa án starfsleyfis

Jón Sigurður Karlsson er klínískur sálfræðingur að mennt en hefur …
Jón Sigurður Karlsson er klínískur sálfræðingur að mennt en hefur ekki lengur tilskilið starfsleyfi.

Embætti landlæknis hefur fengið ábendingar um karlmann sem sinnir störfum sálfræðings án þess að hafa til þess starfsleyfi. Þá hafa einstaklingar greitt honum fyrir ADHD greiningar, sem séu hvergi teknar gildar. 

Þetta kemur fram í frétt Vísis, en sálfræðingurinn sem um ræðir heitir Jón Sigurður Karlsson. Hefur hann starfað sem klínískur sálfræðingur í fjölda ára, en í dag er nafn hans ekki lengur að finna í starfsleyfaskrá embættisins. 

Til marks um erfiða stöðu ADHD sjúklinga

Formaður ADHD samtakanna, Vilhjálmur Hjálmarsson, segir að samtökunum hafi borist tilkynningar um að greiningar frá sálfræðingnum standist ekki. Skjólstæðingar hans séu því ekki með greiningu, enda sé ekki farið eftir klínískum aðferðum sem tíðkast nú á dögum. 

Hann telur þetta birtingarmynd erfiðrar stöðu ADHD sjúklinga og skorts á geðlæknum. 

Sálfræðingar geta greint skjólstæðinga sína með ADHD, en einungis geðlæknar geta tekið ákvörðun um lyfjameðferð viðkomandi. 

Samkvæmt heimildum Vísis hefur Jón boðið skjólstæðingum sínum að hitta erlenda geðlækna, sem hafa getað skrifað upp á lyf sem hægt er að leysa út í viðkomandi landi.  Þá hafi Jón sjálfur ferðast til þess að sækja lyf fyrir skjólstæðinga sína. 

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna. Ljósmynd/Aðsend

Tengir skjólstæðinga við geðlækna erlendis

Jón segist tengja skjólstæðinga við geðlækna erlendis vegna læknaskorts hér á landi og telur að það feli ekki í sér brot á íslenskum lögum.

Þá segist hann jafnframt sinna málefnum skjólstæðinga sinna sem markþjálfi í dag, en ekki sem sálfræðingur og framkvæmi því ekki greiningar. 

Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um það hvort málið sé á þeirra borði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert