Synti á eftir kindunum og kom þeim í skjól

Kindurnar höfðu orðið innlyksa á hólma úti í ánni.
Kindurnar höfðu orðið innlyksa á hólma úti í ánni. Ljósmynd/ Þórður Úlfarsson

Þórður Úlfarsson, stýrimaður og bóndi á Syðri Brekkum í Þistilfirði, tók eftir því í morgun að átján kindur nágranna hans voru orðnar innlyksa á Kílsnesi við Hafralónsá, en flætt hafði yfir hólmann að miklu leyti.

Var Þórði ekki til setunnar boðið, klæddi hann sig í vöðlur og óð út í ána til þess að smala kindunum heim í land. 

„Ég komst bara fyrir þær og rak á eftir þeim. Það var svo aðeins meira í ánni en ég hélt þannig að þær þurftu að synda greyin.“

Vöðlurnar fylltust af vatni

Ekki nóg með að kindurnar hafi synt, en það gerði Þórður líka og kom holdvotur í land, enda fylltust vöðlurnar af vatni.  

„Ég hef aldrei lent í neinu eins og þessu áður, þetta var ákveðin frumraun.“

Eigandi kindanna tók á móti þeim við árbakkann og þær eru nú komnar inn í fjárhús í skjól. Enn er fárviðri á Þórshöfn að sögn Þórðar. 

Birti hann mynd á facebook síðu sinni og gerði grín að því að þetta væri í fyrsta skipti sem hann veiddi í Hafralónsá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert