Tré rifnað upp með rótum og skólahaldi frestað á Djúpavogi

Mikið sjórok hefur verið á Djúpavogi í dag og allt …
Mikið sjórok hefur verið á Djúpavogi í dag og allt úti í salti og sjó. Ljósmynd/Kristján I

Tré hafa rifnað upp með rótum, járnplötur fokið og skólahaldi frestað á morgun á Djúpavogi. Óveðrið hefur haft mikil áhrif á íbúa í bænum en mikill vindur og sjórok hafa einkennt síðastliðinn sólarhring.

Kristján Ingimarsson, íbúi á Djúpavogi, kannaði ástandið í bænum í dag og tók myndir en sagði íbúa á Djúpavogi ekki hafa hætt sér mikið út í dag vegna veðursins.

„Veðrið hefur verið brjálað í dag en þrátt fyrir það hefur ekki neitt stórtjón orðið en það á betur eftir að koma í ljós á morgun þegar fólk hættir sér út. Núna rétt áðan sá ég járnplötur fjúka af skemmu úti í sveit og eitthvað um að grindverk og skilti falli niður.“

Tré hafa rifnað upp með rótum á Djúpavogi í dag.
Tré hafa rifnað upp með rótum á Djúpavogi í dag. Ljósmynd/Kristján I

Mikið sjórok í bænum

„Það hefur verið gríðarlega mikið sjórok í bænum og allt í salti hvert sem farið er. Fólk sér lítið út um glugga en það er salt á öllum gluggum. Ef maður hættir sér út verður maður blautur fljótt ásamt því sem það er salt alls staðar,“ segir Kristján.

Hann segir fólk hafa verið búið að búa sig vel undir veðrið og gera ráðstafanir. Flestir voru því búnir að taka inn trampólín, ruslafötur og aðra lausamuni. 

Björgunarsveitin hefur verið á vaktinni og verið til aðstoðar á Djúpavogi í smærri verkefni og hefur staðið vaktina vel að sögn Kristjáns.

Mikið salt er á rúðum í bænum og sér fólk …
Mikið salt er á rúðum í bænum og sér fólk lítið út. Ljósmynd/Kristján I
Veðrið hefur verið brjálað í dag en þrátt fyrir það …
Veðrið hefur verið brjálað í dag en þrátt fyrir það hafa ekki verið nein stórtjón. Ljósmynd/Kristján I
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert