Reikna með að selja allt að 2.000 októberstjörnur

(Frá vinstri): Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar og Blómavals, Diana Allansdóttir, …
(Frá vinstri): Magnús Magnússon, markaðsstjóri Húsasmiðjunnar og Blómavals, Diana Allansdóttir, deildarstjóri Blómavals, Birgir Birgisson hjá Garðyrkjustöðinni Ficus og Árni Reynir Alfreðsson, forstöðumaður markaðsmála hjá Krabbameinsfélaginu. Ljósmynd/Blómaval

Átak Bleiku slaufunnar hófst í gær og voru þá fyrstu októberstjörnurnar jafnframt afhentar í verslun Blómavals í Skútuvogi. Hið fagurbleika afbrigði er ræktað sérstaklega með stuðning við Bleiku slaufuna í huga og tók Árni Reynir Alfreðsson, forstöðumaður markaðsmála frá Krabbameinsfélagi Íslands, við fyrsta blóminu.

Októberstjarnan hefur verið seld til styrktar Bleiku slaufunni í tvö ár en það er Birgir Birgissonson hjá Garðyrkjustöðinni Ficus í Hveragerði sem hóf ræktun á stjörnunni til styrktar málefninu.

Yrkið er náskylt jólastjörnunum og heitir „J‘Adore Pink“ eða ég elska bleikt, og þykir því við hæfi að selja það í bleikum október.

Hvetja fólk til að kaupa Bleiku slaufuna

„Bleika slaufan gegnir afar stóru hlutverki í markaðs- og fjáröflunarstarfi Krabbameinsfélagsins og gerir félaginu kleift að vinna að sínum meginmarkmiðum sem eru að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandendur þeirra.

Átakið um Bleiku slaufuna verður sérlega vandað sem endranær og hefst með magnaðri opnunarhátíð í Háskólabíó nú í kvöld og hlökkum mikið til. Við hvetjum fólk einnig til að kaupa Bleiku slaufuna sem er í ár hönnuð af Orrafinn,“ er haft eftir Árna Reyni í tilkynningunni.

Stefna á að selja allt að tvö þúsund októberstjörnur

Diana Allansdóttir, deildarstjóri hjá Blómaval, segir að salan á októberstjörnunni hafi aukist ár frá ári og að fyrirtækið reikni með að selja á bilinu 1-2000 októberstjörnur á meðan birgðir endast í október.

„Í ár munum við ekki aðeins selja októberstjörnuna í öllum verslunum Blómavals heldur einnig í öllum verslunum Húsasmiðjunnar um land allt. Við hvetjum fólk til að lífga upp á bæði heimili og vinnustaði með þessu fallega, skærbleika blómi og styrkja um leið mikilvægt átak sem snertir okkur öll,“ er haft eftir Diönu í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert