Ég er bara íslensk

Daisy er upprunalega frá Hollandi en féll snemma fyrir Íslandi …
Daisy er upprunalega frá Hollandi en féll snemma fyrir Íslandi og íslensku. Hún hefur kennt íslensku hálfa ævina eða svo og er orðinn Íslendingur. mbl.is/Ásdís

„Mamma og pabbi ætluðu að gefa mér Íslandsferð í stúdentsgjöf en íslenskur maður sem þau þekktu sagði að það væri ekki nóg að ég kæmi hingað sem túristi. Honum fannst að ég þyrfti að kynnast Íslandi og átti hann systur á Húsavík. Þannig vildi það til að ég fór til Húsavíkur og bjó hjá henni og hennar fjölskyldu,“ segir Daisy sem dreif sig þá til Íslands, bjó hjá þessari fjölskyldu og fékk vinnu á öldrunardeild Húsavíkurspítala.

„Það var auðvitað frábært því gamla fólkið talaði eingöngu íslensku. Ég lærði alveg helling og ég lærði líka mikið um íslenska menningu,“ segir hún og segir hrifningu sína á Íslandi hafa vaxið frá fyrsta degi.

„Það var engin leið til baka,“ segir hún og hlær dátt.

Þetta reddast! 

Hér á landi hefur hún kennt íslensku sem annað tungumál við Háskóla Íslands sem aðjúnkt síðan 2013, en fyrsta vinnan hennar var að kenna íslensku hjá Mími.

„Ég ákvað loksins að láta af því verða að flytja hingað fyrir fullt og allt. Það var alltaf draumurinn. Ég sagði upp starfinu í London og flutti hingað án þess að hafa neitt starf. Ég ákvað bara að vera eins og ekta Íslendingur og segja: „Þetta reddast!““ segir hún og hlær.

Er eitthvað við Íslendinga sem fer í taugarnar á þér?

 „Agaleysi og skipulagsleysi. En ég reyni að læra af því. Stundum þegar ég fer til Hollands og einhver vill skipuleggja eitthvað með þriggja mánaða fyrirvara eða meir segi ég bara: „Eigum við ekki bara að slaka aðeins á?““ segir hún og segir reyndar Íslendinga hafa marga kosti umfram aðrar þjóðir. Hún nefnir samkennd, góðmennsku og sjálfstraust.  

 „Ég vildi stundum að ég hefði þetta sjálfstraust sem margir hér hafa. Þið eruð alveg ágæt og meira að segja svo ágæt að ég vil bara vera hérna. Ég er íslenskur ríkisborgari og mjög stolt af því. Holland viðurkennir ekki tvöfalt ríkisfang þannig að ég er í raun ekki lengur Hollendingur. Ég er bara íslensk.“

Ítarlegt viðtal er við Daisy í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.  

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert