„Hundaeigandinn þarf að vera ábyrgur“

Husky-hundarnir drápu þrjár hænur í einkagarði í Stykkishólmi.
Husky-hundarnir drápu þrjár hænur í einkagarði í Stykkishólmi. Ljósmynd/Sigga Lóa

Þorsteinn Narfason, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, segir ekki sjálfgefið að leyfi fáist fyrir husky-hundum í þéttbýli, sérstaklega ekki ef það er saga er um að þeir sleppi ítrekað frá eigendum sínum. Það sé í eðli hundanna að drepa dýr sem á vegi þeirra verða.

Greint var frá því fyrr í kvöld að tveir husky-hundar sem gengu lausir í Stykkishólmi hefðu ruðst inn í hænsnakofa í einkagarði og drepið þrjár hænur. Eigandi hænsnanna sagði að sonur hennar hefði reynt að stoppa hundana og verið í stórhættu, þar sem hundarnir hefðu verið stjórnlausir. Benti hún á að hundarnir hefðu ítrekað gengið lausir og líka drepið hænur í Bolungarvík.

Hundarnir hafi gert þetta áður

„Þetta eru Husky-hundar, sem eru veiðihundar, og ef þeir eru lausir þá drepa þeir hænur eða kanínur eða hvað sem á vegi þeirra verður. Tveir lausir hundar geta verið enn fókuseraðri í þessu heldur en einn,“ segir Þorsteinn sem kom að málinu í Stykkishólmi.

„Þarna er saga um að hundarnir hafi gert þetta áður þegar þeir bjuggu í Bolungarvík. Ég hef fengið staðfestingu frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða um það.“

Málið sé nú í höndum bæjaryfirvalda þar sem hundarnir eru óskráðir.

„Það er búið að senda eigendunum bréf um að það þurfi að skrá hundana og það er svo í rauninni spurning hvort það leyfi verður veitt á grundvelli þessarar sögu um að þeir hafi áður drepið og áður verið lausir,“ segir Þorsteinn.

Ekki sjálfgefið að leyfið fáist

„Þetta snýst bara allt um að hundaeigandinn þarf að vera ábyrgur. Hann þarf að gæta þess að hundarnir sleppi ekki, en ég sem hundaeigandi, með margra ára reynslu, veit að hundar sleppa frá eigendum sínum einhvern tíma. Þess vegna er enn mikilvægara þar sem eru husky-hundar í þéttbýli, að þar sé afgirt lóð. Hundheld girðing,“ segir Þorsteinn jafnframt.

„Mér finnst í raun ekkert sjálfgefið að það fáist leyfi fyrir husky-hundi í þéttbýli. Ég er ekki viss um það að ef það er saga um eitthvað eins og þarna,“ bætir hann við.

Ef eigendur eru ábyrgir, þjálfa hundana, hafa stjórn á þeim og eru með afgirta lóð, sem dregur úr líkum á að hundarnir valdi usla ef þeir sleppa út, þá er hægt að veita leyfi, að sögn Þorsteins. Séu eigendur hins vegar kærulausir gangi það ekki upp.

Fá væntanlega viðbrögð frá eigandanum 

Hann bendir á að samþykkt um hundahald sé þannig orðuð að hundaeigendur megi ekki valda öðrum ónæði. „Það getur því alveg komið til skoðunar að veita ekki leyfi eða hafna gildandi leyfi. Það eru alveg úrræði í samþykktinni.“

Næsta skref varðandi husky-hundana í Stykkishólmi sé því væntanlega að fá viðbrögð frá eigandanum áður en ákvörðun um leyfi er tekin.

„Ég myndi telja að sveitarfélagið þurfi að fá viðbrögð frá eigandanum sem sýna fram á að hann að ætli að gera þetta af ábyrgð; girða lóðina, fara með hundinn á námskeið og koma til móts við kröfurnar. Þá gengur kannski að láta á það reyna. Ef það er ekkert svona, þá gengur það ekki.“

Frétti af málinu í Bolungarvík fyrir tilviljun 

Ekki er til neinn sameiginlegur gagnagrunnur sveitarfélaga yfir upplýsingar um hundahald. Það er því ekki sjálfgefið að upplýsingar um óábyrga hundaeigendur og atferli hunda berist á milli sveitarfélaga.

„Sveitarfélögin eru sjálfstæð og þarna er saga um eitthvað sem gerist annars staðar en það er ekki sjálfgefið að þessi saga flytjist milli sveitarfélaga. Það var bara tilviljun að ég frétti það,“ segir Þorsteinn.

„Segjum að bæjaryfirvöld í Stykkishólmi myndu hafna þessu leyfi, þá gæti viðkomandi flutt annað og endurtekið endalaust einhverja vitleysu.“

Hann segir þó að heilt yfir sé að verða minna eftirlit í kringum hundahald. Ef hundur sleppi út sé hann einfaldlega auglýstur á Facebook og skili sér fljótt aftur til eigenda.

„Þetta er fyrst og fremst innheimtumál hjá sveitarfélögunum að ná inn gjöldum af hundum. Á meðan fólk er að standa sig þá er ekki mikið heilbrigðisvandamál tengt því,“ segir Þorsteinn sem tekur fram að flestir hundaeigendur standi sig í stykkinu og séu ábyrgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert