Skortstefna ein orsök húsnæðisvandans

Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir í kosningabaráttunni, þegar ýmsir töldu …
Einar Þorsteinsson og Hildur Björnsdóttir í kosningabaráttunni, þegar ýmsir töldu að Sjálfstæðismenn og Framsókn hygðu hugsanlega á samstarf. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ár eftir ár heyrum við fulltrúa meirihlutans tala um sögulega uppbyggingu framundan en tölurnar tala öðru máli,“ segir Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. „Nýleg talning Samtaka iðnaðarins sýnir glöggt hvernig fjöldi íbúða í byggingu fækkar milli ára í Reykjavík en eykst á öðrum svæðum. Höfuðborgin er ekki í forystu og þeirri þróun þarf að snúa við.“

Einfaldara regluverk væri framför

Hildur segir að mikilvægt sé að framkvæmdir fylgi yfirlýsingum og síðan þurfi líka að einfalda alla stjórnsýslulega umgjörð til að hraða framkvæmdum til að bregðast við mikilli eftirspurn sem hún segir komna til að stóru leyti vegna hægagangs meirihlutans í húsnæðismálum síðustu árin.

„Húsnæðisstefna síðustu ára hefur verið skortstefna, sem er ein ástæða þess gríðarlega húsnæðisvanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Við þurfum að skipuleggja fleiri svæði í borginni, í einhverjum tilfellum með nýjum hverfum, svo sem að Keldum eða í Örfirisey, en í öðrum tilfellum má stækka og efla eldri hverfi, þar sem innviðir geta þjónustað fleira fólk. Jafnframt er gríðarlega mikilvægt að tryggja aðgerðir sem hraða húsnæðisuppbyggingu. Þar myndi skipta sköpum að einfalda regluverk, tryggja sveigjanlega stjórnsýslu, styttri afgreiðslufresti og rafræna ferla.“

Hlýtur að vera hægt að vinna þetta betur

Á fundi borgarstjórnar á þriðjudag kom fram að Kópavogur er nánast búinn með sitt land, en sveitarfélagið var í mjög öflugri uppbyggingu fyrir nokkrum árum. Þar séu nú eingöngu þéttingarmöguleikar í byggðum í kortunum. Hildur segir það vera rétt og þess vegna skipti svo gífurlegu máli að borgin taki sér tak, enda er Reykjavík með sérstöðu á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að aðgengi að stórum landsvæðum. Hildur segir að Sjálfstæðisflokkurinn í boginni hafi verið óþreytandi að benda á ýmis svæði til uppbyggingar í þeim efnum of í lok síðasta kjörtímabils hafi loks eitthvað farið í gegn.

 „En svo eru líka bara mörg hverfi sem þola alveg aukna byggð. Það hefur verið svolítil áhersla á að byggja innan hverfa þar sem innviðir eru sprungnir, en ekki í hverfum eins og Úlfarársdalnum eða Staðahverfi í Grafarvogi þar sem innviðir eru til staðar. Til að mynda þurfti að loka skóla í Staðahverfinu á síðasta kjörtímabili vegna þess að það vantaði börn í hverfið og þar er mikið tækifæri til að byggja meira. Það hlýtur einfaldlega að vera hægt að vinna þetta betur," segir Hildur.

Reykjavík þarf að vera góður búsetukostur

„Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki láta sitt eftir liggja í umræðu um húsnæðisvandann. Við verðum ávallt reiðubúin að vinna að lausnum enda okkar markmið að í borginni finnist úrval fjölbreyttra húsnæðiskosta. Við viljum að Reykjavík sé aðlaðandi og aðgengilegur búsetukostur fyrir fólk á öllum aldri. “

Hildur bætir því við að henni finnist einnig sérkennilegt að fella tillöguna um skipulag í Geldinganesi.

„Það er sérkennilegt að ekki sé vilji innan meirihlutans til að sýna einfalda fyrirhyggju í málinu. Fyrir liggur að skipulagsferli fyrir Sundabraut er framundan. Við þá skipulagsvinnu er mikilvægt að huga að framtíðarmöguleikum á svæðinu og gæta þess að lega brautarinnar útiloki ekkert í þeim efnum. Þó Geldinganesið verði ekki á dagskrá í náinni framtíð undir íbúðabyggð, þá er sjálfsagt að loka ekki þeim möguleika fyrir komandi kynslóðum. Um það snerist tillagan.“

Frasi sem lítur dagsins ljós reglulega

Einar Þorsteinsson borgarfulltrúi Framsóknar og væntanlegur borgarstjóri sagði vilja kjósenda í síðustu kosningum hafa sýnt að húsnæðismálin þyrftu að vera mál málanna og að Framsókn væri að keyra húsnæðismálin í gegn í meirihlutanum og það hafi verið skilyrði fyrir samstarfinu. 

„Já, en við höfum ekki tekið eftir því að það sé einhver sérstök áherslubreyting. Við sjáum í rauninni að þau svæði sem eru fyrirhuguð í húsnæðisuppbyggingu eru þau sömu og var stefnt að fyrir kosningar, þannig að við höfum ekki séð neitt nýtt í þeim efnum. En við munum auðvitað fagna því ef það koma fram einhverjar nýjungar. En við heyrum hérna ár eftir ár að nú sé að hefjast mesta uppbyggingarskeið í sögu borgarinnar, sem er orðinn þekktur frasi sem lítur dagsins ljós reglulega, en tölurnar hafa kannski ekki alveg talað því máli eins og ég sagði hér áðan,“ segir Hildur í lokin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert