„Gæti verið öruggasta helgin til að fara á djammið“

Arnar hvetur Íslendinga til að óttast ekki miðbæinn.
Arnar hvetur Íslendinga til að óttast ekki miðbæinn. mbl.is/Ari

Skemmtanalífið í miðbæ Reykjavíkur var heldur rólegt í nótt. Ferðamenn drifu sig heim fyrir miðnætti og fáir Íslendingar gerðu sér ferð í bæinn. Eigandi kráa í miðbænum hvetur fólk til að óttast ekki skemmtanalífið og biðlar til fjölmiðla að hætta því sem hann kallar hræðsluáróður.

Ætla má að skjáskotin af skila­boðum sem gengu á milli á manna á sam­fé­lags­miðlum í vikunni, þar sem varað var við yf­ir­vof­andi árás í miðbæ Reykja­vík­ur, hafi haft áhrif á djammhegðun fólks.

„Við erum vanir ýmsu eftir Covid en þetta er óþarfa hræðsluáróður sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum. Þrátt fyrir að lögreglan hvetji fólk jafnvel til að koma í bæinn og lifa lífinu virðast fjölmiðlar mjög ítrekað fjalla um að fólk ætti frekar að halda sig heima og eru þar af leiðandi með hræðsluáróður sem að svo sannarlega virkar, og sérstaklega í gær,“ segir Arnar Þór Gíslason, einn eig­enda Le­bowski bars, Kalda bars, Enska bars­ins, The Iris­hm­an Pub og Dönsku krá­ar­inn­ar, í sam­tali við mbl.is.

Fjölmiðlar stundi ekki hræðsluáróður

Arnar nefnir sérstaklega frétt sem Vísir birti klukkan tvö í nótt um að grímuklæddir einstaklingar hefðu mætt á bjórkvöld menntaskólanema á Seltjarnarnesi. Í fréttinni var haft eftir lýsingu heimildarmanns miðilsins að hnífar hefðu verið á lofti. Upplýsingarnar reyndust rangar og hefur fréttin verið uppfærð.

„Fjölmiðlar þurfa að passa að gefa þessum gengjum eða klíkum ekki óþarfa athygli. Maður sá á Vísi í morgun að þar var fjallað um að hópur grímuklæddra með hnífa hafi farið inn á bjórkvöld sem reyndist svo kolrangt,“ segir Arnar og bætir við:

„Ég vona að fjölmiðlar vinni heimavinnuna sína aðeins betur og stundi ekki svona gríðarlegan hræðsluáróður.“

Fáir þurftu líklega að bíða í röðum til að komast …
Fáir þurftu líklega að bíða í röðum til að komast inn á skemmtistaði í nótt. mbl.is/Ari

Nóg pláss fyrir Íslendinga

Sendiráð Breta og Bandaríkjamanna á Íslandi hafa bæði varað borgara sína við miðbænum í kjölfar skjáskotanna.

Arnar segir flesta ferðamenn hafa látið sig hverfa úr miðbænum á milli klukkan ellefu og tólf og telur tilkynningar sendiráðanna tveggja hafa haft áhrif á það. Hann bendir á að þar sem ferðamenn flýti sér nú úr bænum fyrir miðnætti sé nóg pláss fyrir heimamenn.

„Þá er nóg pláss fyrir Íslendingana að koma og djamma og þurfa ekki að standa í röð.“

Lögreglan var með mikinn viðbúnað í nótt.
Lögreglan var með mikinn viðbúnað í nótt. mbl.is/Inga

Allir tilbúnir með sína dyraverði

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu var með stór­aukið eft­ir­lit og viðbúnað í miðbænum í nótt og verður viðbúnaðurinn líklega sá sami í kvöld. Því telur Arnar að þessi helgi gæti verið öruggasta helgin til að fara á djammið.

„Það eru allir tilbúnir með sína dyraverði og lögreglan er með tvöfalda eða þrefalda vakt í bænum þannig að þetta gæti verið öruggasta helgin til að fara á djammið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert