Fossar söfnuðu 24 milljónum fyrir Píeta samtökin

Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna, tekur við söfnuninni úr hendi …
Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna, tekur við söfnuninni úr hendi Haraldar Þórðarsonar, forstjóra Fossa. Ljósmynd/Aðsend

Fossar söfnuðu um 24 milljónum króna fyrir Píeta samtökin á „Takk dag“ fjárfestingarbankans í síðustu viku, en afhending söfnunarinnar fór fram í höfuðstöðvum Fossa markaða í Reykjavík í dag.

„Píeta samtökin hafa vaxið hratt frá stofnun 2016, en þau eru fjármögnuð nær alfarið með frjálsum framlögum. Söfnun Takk dags Fossa er því mikil lyftistöng og stórkostlegt liðsinni við starf okkar,“ segir Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Píeta samtakanna. „Síðustu ár má segja að veldisvöxtur hafi verið í starfsemi Píeta og ljóst að þörf var fyrir starfsemi sem okkar. Við þökkum Fossum og öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir framtakið.“

Starfsfólk Fossa velur málefni hverju sinni

Starfsfólk Fossa hefur valið það málefni sem stutt er með söfnun Takk dagsins hverju sinni. „Það er ánægjulegt að styðja við starf sem miðar að því að stíga inn þar sem þörfin er mikil og bæta þannig okkar samfélag. Við erum sérstaklega stolt af valinu í ár og því að fá tækifæri til að styðja við starf Píeta samtakanna,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa.

Í ár fór Takk dagur Fossa fjárfestingarbanka fram í áttunda sinn, en á umræddum degi renna allar þóknanatekjur vegna viðskipta dagsins til góðs málefnis og svo gefst viðskiptavinum kostur á að styrkja söfnunina beint. Segja má að söfnunin hafi slegið met á hverju ári frá byrjun en á síðasta ári söfnuðust rúmar 21,6 milljónir króna sem runnu til Jafningjaseturs Reykjadals.

Auk Fossa taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland) og uppgjörsfyrirtækið T Plús þátt í deginum með því að fella niður öll gjöld af viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau í staðinn til söfnunarinnar. Þá gefur auglýsingastofan TVIST vinnu sína sem tengist deginum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert