Vinnur gegn Parkinson og fer 10.000 km á hjólinu

Einar ver nokkrum mánuðum á ári á Spáni þar sem …
Einar ver nokkrum mánuðum á ári á Spáni þar sem hann rakar venjulega upp nokkur þúsund kílómetrum. Ljósmynd/Aðsend

Um fjögur ár eru síðan Einar Guttormsson var greindur með Parkinson-sjúkdóminn, en þá var hann þegar orðinn verkjaður og leið illa og taldi sig glíma við stoðkerfisvanda. Eins og alla jafna er gert með Parkinson-sjúklinga hvatti læknirinn Einar til að reyna að hreyfa sig talsvert þar sem það hefði góð áhrif á einkenni og hjálpaði samhliða lyfjagjöf við að halda sjúkdóminum niður.

Einar var nokkuð nýlega byrjaður að stunda hjólreiðar og ákvað þarna að taka það enn fastari tökum. Í ár stefnir hann hraðbyr að því að klára 10 þúsund kílómetra á árinu og styrkja Parkinson-félagið um leið, en til þess þarf hann að hjóla sem nemur einu maraþoni daglega að áramótum. Hann segist í dag vera betri en þegar hann greindist árið 2018.

Einar hefur í gegnum tíðina stundað skrifstofuvinnu og segir hlægjandi að hann hafi aldrei stundað neinar skipulagðar íþróttir, þar með talið á ungdómsárunum, þangað til hann fann sig í hjólreiðum. Hann hafi reyndar í einhvern tíma gengið við og við á fjöll, en svo árið 2016 var hann plataður í að taka þátt í Wow-cyclothoninu og þá var hann kominn með bakteríuna.

„Þá gat ég byrjað að hjóla aftur“

„Ég tók þetta af miklum krafti fyrst,“ segir Einar en hann tók þetta ár þátt með hjólahópi Víkings. Þetta var áður en hann greindist með sjúkdóminn, en nokkru áður var hann farinn að finna fyrir verkjum sem hann tengdi alla jafna við einhverja stoðkerfisvanda. Hann hélt samt áfram að hjóla, en tveimur árum síðar var hann orðinn nokkuð afhuga því vegna verkjanna. Hann fékk á þeim tíma greiningu og í kjölfarið lyf til að halda sjúkdóminum niðri.

„Þá gat ég byrjað að hjóla aftur,“ segir Einar.

„Læknirinn hvetur mig til að hjóla áfram. Þeir hvetja fólk með Parkinson alltaf til að reyna að hreyfa sig,“ segir hann, en sjúkdómurinn helgast meðal annars af því að frumur í heilanum hætta smám saman að mynda taugaboðefnið dópamín sem stýrir meðal annars hreyfingu og jafnvægi. Einar bætir því við að það sé einnig kallað hamingjuhormónið.

Einar þekkir málefni sjúkdómsins ágætlega, en hann hefur undanfarin ár verið í stjórn samtakanna. Hann segir að stór hópur þeirra sem greinist sé þegar búinn að missa 70-80% af framleiðslugetu dópamíns, en hreyfingin þar sem hjartslátturinn er látinn rjúka aðeins upp hjálpar verulega við að bæta ástandið og halda taugafrumum virkum sem enn eru það.

„Og þarna eru hjólreiðarnar mjög góðar. Þetta eru langar æfingar sem reyna verulega á hjartað,“ segir hann.

Eins og flestir hjólarar þekkja þá er nauðsynlegt að koma …
Eins og flestir hjólarar þekkja þá er nauðsynlegt að koma við á Bessastöðum nokkrum sinnum á hverju hjólasumri. Ljómsynd/Einar

„Ég er á betri stað í dag“

Við greiningu segir Einar að hann hafi verið orðið nokkuð óöruggur á hjólinu vegna jafnvægisskorts. Honum hafi hins vegar létt mikið að fá greininguna og fengið eldmóð og virkilega ætlað að tækla ástandið. „Það hleypur kapp í mig að vilja gera sem allra best og hjólið var nærtækast þar sem ég hafði verið í því,“ segir hann og bætir við: „Í rauninni hefur mér farið mikið fram síðan greiningin var og ég er á betri stað í dag.“

Hann tekur samt fram að önnur einkenni sjúkdómsins komi hægt og rólega fram og nefnir hann að aðgerðaleysið sé farið að koma sterkara fram í honum. Það virkar kannski öfugsnúið að tala um aðgerðaleysi þegar Einar fer flesta daga ársins og hjólar í eina klukkustund og jafnvel upp í hálfan sólarhring í lengstu hjólatúrunum.

Hann segir þetta aðgerðaleysi þó koma fram í því að eiga oft erfitt með frumkvæði og að halda nokkrum boltum á lofti, þ.e. að vinna að nokkrum verkefnum í einu. „Ég hef líka alveg lent í því nokkrum sinnum að fá þreytu og leiða á hjólinu,“ segir hann, en að góðir félagar hafi verið duglegir að draga hann af stað.

Tók mataræðið líka í gegn og kílóin fuku

Einar býr einnig vel að eiga athvarf á Alicante-svæðinu á Spáni, en þar ver hann nokkrum mánuðum á hverju ári og hjólar þar reglulega með góðum hópi bæði Íslendinga og annarra sem þar dvelja. „Það er góð aðstaða til að hjóla þar og maður slátrar mörgum kílómetrum þar,“ segir hann hlæjandi.

Samhliða því að taka hjólreiðarnar föstum tökum segir Einar að hann hafi einnig tekið bæði mataræði og lífstílinn í gegn og það hafi skilað því að hann léttist um 15 kíló. Segir hann að það hjálpi talsvert við að fara upp mestu brekkurnar.

8 þúsund, 9 þúsund og vonandi 10 þúsund

Árið 2020 náði Einar að hjóla samtals 8 þúsund kílómetra og í fyrra voru kílómetrarnir 9 þúsund talsins. Í byrjun þessa árs ákvað hann að stefna á 8 þúsund kílómetra, en þegar ljóst var að hann myndi ná því hækkaði hann markmiðið í 10 þúsund kílómetra og er hann nú á fullu að ná þeim áfanga, en til þess þarf hann samt að hjóla sem jafngildir einu maraþoni á dag fram að áramótum.

Einar segir að hann hafi byrjað hægt í ársbyrjun, en svo hafi hann unnið á og kílómetrarnir farið að rúlla inn. Úti á Spáni taki hann venjulega um helming kílómetra yfir árið, en auk þess reyni hann að hjóla talsvert úti á Íslandi til viðbótar við að vera með „trainer“ inni sem hann hjólar á yfir vetrartímann.

Einar á ferð á Spáni með góðum hópi.
Einar á ferð á Spáni með góðum hópi. Ljósmynd/Aðsend

3.120 kílómetrar á tveimur mánuðum

Nýlega kom Einar heim úr síðustu Spánarferð sem varði í um tvo mánuði og hjólaði hann þá 3.120 kílómetra.

„Þá fór ég að eygja að ég gæti klárað þetta.“ Þegar mbl.is náði á Einar í morgun var hann einmitt á „trainernum“ þar sem hann tók um 40 kílómetra. Einar segir hins vegar að hann ætli sér helst að klára markmiðið sem fyrst þannig að það hangi ekki yfir honum yfir jólasteikinni. Því sé hann að taka meira en 40 kílómetra flesta daga núna og að í kvöld sé áformuð æfing með Víkingum. Samtals verði þetta því rúmlega 80 kílómetrar í dag.

„Maður þarf að vinna sér í haginn fyrir jólin,“ segir Einar.

Parkinson getur verið nokkuð dyntóttur sjúkdómur að sögn Einars og því segist hann ekki hafa verið hrifinn af því að opinbera markmið sín. Jafnframt segist hann veigra sér við því að setja fram frekari áskoranir, jafnvel þótt hann finni fyrir mikilli auka hvatningu eftir að hann upplýsti um markmiðið í ársbyrjun. Viðurkennir hann að vera hræddur við það hvenær sjúkdómurinn geti tekið á sig þá mynd að hann geti ekki lengur setið á hjólinu, en á sama tíma er hann bjartsýnn um að læknavísindin séu á réttri leið með að finna einhvers konar lækningu.

„En ég held að það verði blanda af lífstíl, hreyfingu og lyfjum,“ segir Einar skýrt. „Það er ekkert eitt sem gerir mann heilbrigðan á ný.“

Sjálfur er hann 58 ára gamall, en segist vonast til þess að fólk muni sjá auknar framfarir á næstu árum eða áratug.

Eins og fyrr segir er Einar ekki bara að stefna á þessa 10 þúsund kílómetra fyrir sjálfan sig, því hann hvetur fólk til að heita á sig með því að styrkja Parkinson-félagið, en það er hægt að gera með millifærslu á kennitölu: 461289-1779 og bankanúmer: 0111-26-25.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert