VR verður með á fundinum

Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR …
Vilhjálmur Birgisson formaður SGS og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR á fundi í húsakynninum Ríkissáttasemjara í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fulltrúar frá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur munu mæta til fundarins hjá Ríkissáttasemjara á morgun en þar verða einnig samninganefndir Starfsgreinasambandsins og Landsambands verslunarmanna auk Samtaka atvinnulífsins. 

Kjaraviðræðum var frestað síðasta föstudag þar til á morgun. Þá hafði komið upp sú staða að VR hafði slitið viðræðum við SA eins og fram kom á föstudag. 

„Ég var boðaður á fundinn á morgun og ætla að mæta. Ríkissáttasemjari vildi boða okkur á fundinn og ég verð að sjálfsögðu við því,“ sagði Ragnar þegar mbl.is ræddi við hann í dag. 

„Efnislega hefur ekkert breyst. Þótt viðræður fari í þennan farveg þá höldum við áfram að reyna. Við erum áfram boðuð á fundi og verkefnið fer ekki frá okkur. Við ætlum að mæta á fundinn á morgun og tökum stöðuna eftir þann fund. Við erum á fullu að vinna okkar vinnu.“

Ragnar segir ekki tímabært að fara nákvæmlega út í áherslur VR á opinberum vettvangi en mest áhersla verður lögð á millitekjuhópana. 

„Varðandi hópana hjá okkur innan VR þá viljum við leggja meiri áherslu á millitekjuhópana. Það hefur komið skýrt fram í okkar kröfugerð að nú sé röðin komin að þeim.  Við höfum líka fundið samhljóm með kröfum iðnaðarmanna þótt sambandið á milli allra landsambanda og félaga sé einnig gott,“ sagði Ragnar Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert